Íslandsmótið í golfi hefst á Akureyri í dag
„Við höldum okkar striki sem er mjög jákvætt,“ segir Steindór Kr. Ragnarsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar. Íslandsmótið í golfi fer fram á Jaðarsvelli dagana 5. til 8. ágúst, en um er að ræða stærsta og umfangmesta mót sem haldið er meðal kylfinga hér á landi. Undirbúningur hefur staðið yfir lengi og hefur mikið verið lagt í að gera Jaðarsvöll sem best úr garði fyrir mótið.
„Þátttakendur eru margir og þeim er skipt niður í holl sem hvert er á sínu róli og áhorfendur dreifast um allan völl,“ segir Steindór. Eftir að ný reglugerð um sóttvarnir tók gildi um liðna helgi má gera ráð fyrir að gerð verði sú breyting að lokahóf verði með öðru sniði. Steindór segir að öllum settum reglum varðandi fjölda verði fylgt.
Aðsóknarmet í sumar
Aðsókn að Jaðarsvelli hefur verið einkar góð í sumar. „Það hefur gengið ótrúlega vel hjá okkur og aðsókn alveg gríðarmikil. Sumarið er ekki búið en það sem af er hefur aðsókn verið meiri en í fyrra en það ár sló öll fyrri aðsóknarmet. Við erum að toppa það núna og því ekki annað hægt en að vera kampakátur,“ segir Steindór.
-mþþ