4.desember - 11. desember - Tbl 49
Fyrsta hnefaleikamót Þórs
Diplómamót unglinga í hnefaleikum fór fram sl. helgi en keppt var í sal hnefaleikadeildar Þórs í íþróttahúsinu við Laugargötu á Akureyri. Alls voru 12 keppendur á aldrinum 13-19 ára skráðir til leiks, þ.e. átta frá Þór og fjórir keppendur komu frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Frá þessu er greint á vef Þórs. Þar segir að á árunum um og upp úr 1920 hafi Þórsarar lagt stund á hnefaleikaiðkun en ekki hafa fundist heimildir um að keppt hafi verið í íþróttinni og því sé talið líklegt að mót þetta sé fyrsta hnefaleikamótið sem haldið er undir merkjum Þórs. Mótið gekk mjög vel og skipulag til mikilla fyrirmyndar, segir á vef Þórs.
Eftirtaldir fengu viðurkenningar á mótinu:
Þórsararnir Gunnar Benedikt Hansen Einarsson, Alan Mackiewicz, Igor Biernat og Hlynur Andri Friðriksson hlutu Diplómaviðurkenningu fyrir hæfilega frammistöðu í frumraunum sínum í hringnum. Þá hlaut Ágúst Davíðsson gullmerki Hnefaleikasambands Íslands (HNÍ) fyrir framúrskarandi árangur. Að auki hlaut María Rún Jóhannsdóttir frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar bronsmerki HNÍ.