Framkvæmdir hafnar á KA-svæðinu
Langþráður dagur KA-fólks rann upp í dag þegar framkvæmdir hófust við endurbætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á KA-svæðinu. Akureyrarbær sér um og heldur utan um framkvæmdina. Greint er frá þessu á heimasíðu félagsins
Á fundi Umhverfis- og mannvirkjaráð í desember 2021 var lagt fram minnisblað varðandi útboð framkvæmda við gervigrasvelli á félagssvæði KA. Í lok janúar voru tilboð opnuð og bárust þá tvö tilboð. Gekk Akureyrarbær til samninga við Finn ehf. sem hóf framkvæmdir í dag.
Fyrsta skrefið í framkvæmdum er jarðvegsvinna þangað sem færa á núverandi gervigras. Það verður einfaldlega dregið yfir og mun nýtast í svipaðri mynd og í dag, en þó verða engin flóðljós sett upp við það.
Útskýringu á framkvæmdum má sjá á kortinu hér fyrir ofan.
Nýtt gervigras verður lagt á svæðið þar sem núverandi gervigras er. Vökvunarkerfi verður komið upp og færanleg stúka sett upp við völlinn. KA mun spila heimaleiki sína þar í sumar í Bestu deild karla um leið og völlurinn er tilbúinn.
Umhverfis- og mannvirkjaráð gerði samning við Metatron ehf. um kaup á gervigrasinu, LigaTurf RS Pro II CP 240 18/4. Áætlað er að grasið og stúkan komi til landsins í lok apríl en KA annast leigu á henni alfarið.
„KA fagnar framkvæmdinni og ljóst er að hún nýtist ekki aðeins KA, heldur öllum þeim liðum sem æfa og keppa á félagssvæði KA. Það eru fjölmörg félög sem æfa í hverri viku á gervigrasvelli KA,“ segir í á heimasíðu félagsins.