13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Vinnuhópur um uppbyggingu á KA-svæðinu
Akureyrarbær hefur skipað vinnuhóp til að hefja formlegar viðræður um uppbyggingu á KA-svæðinu. Ingvar Már Gíslason, formaður KA, tilkynnti þetta á aðalfundi félagsins sem haldin var nýverið.
Fyrir hönd KA í vinnuhópnum verða Ingvar Már Gíslason formaður félagsins, varaformaðurinn Eiríkur Jóhannsson og Sævar Pétursson framkvæmdastjóri félagsins. Hjá Akureyrarbæ eru í hópnum þau Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs, Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórnar, Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi og Arnar Þór Jóhannesson nefndarmaður í frístundaráði.
Skrefið sem var beðið eftir
Félagsmenn KA hafa lengi haft væntingar um að hreyfing fari að komast á uppbyggingarmál á félagssvæði þess við Dalsbraut og sl. vetur gagnrýndi Ingvar Már bæjaryfirvöld nokkuð harðlega fyrir aðgerðarleysi.
„Þetta er skrefið sem við höfum viljað taka undanfarin ár; að fá samtalið um uppbyggingu á svæðinu. Því er þetta mjög ánægjulegt,“ segir Ingvar Már í samtali við Vikudag. „Það hefur legið fyrir vilji hjá KA í nokkuð langan tíma að við viljum vera með okkar starfsemi á okkar félagssvæði. Það er í takt við íþróttastefnuna,“ segir Ingvar. Í framtíðarsýn KA er gervigrasvöllur, stúka og bætt félagsaðstaða á KA-svæðinu helstu verkefnin. KA hefur stækkað á undanförnum árum og iðkendum fjölgað og er núverandi aðstaða of lítil fyrir daglega starfsemi félagsins.
Aðstaðan ábótavant á Akureyrarvelli
KA hefur spilað meistaraflokksleiki sína í knattspyrnu á Akureyrarvelli í mörg ár og er með samning við Akureyrarbæ til ársins 2024. „Það liggur fyrir að Akureyrarvöllur er í slæmu ástandi, bæði völlurinn sjálfur og mannvirkin. Við myndum vilja komast þaðan sem fyrst og láta það vera að fara í kostnaðarsamar endurbætur á svæðinu sem aðeins yrði nýtt tímabundið.
Þar að auki nýtist Akureyrarvöllur mjög takmarkað. Við teljum nærtækar að horfa til langtímalausna sem nýtist mun fleiri iðkendum félagsins, þá ekki síst börnum og ungmennum, sem hefur fjölgað verulega eftir uppbyggingu í Nausta- og Hagahverfi. Hins vegar virðum auðvitað þann samning sem er í gildi sé þess óskað,“ segir Ingvar Már.