Viðhald á kirkjutröppum í sumar
Fyrirhugað er að hefjast handa við viðhald á kirkjutröppunum á Akureyri á komandi sumri, stígum, lýsingu og fallvörnum í og við þær.
„Kirkjutröppurnar eru hluti af einu mikilvægasta kennileiti Akureyrar og ferðamenn sækja þangað mikið, til að taka ljósmyndir af kirkjunni og á leið sinni að Lystigarðinum. Þess vegna viljum við mjög gjarna að tröppurnar líti vel út og séu í góðu lagi, séu öruggar fyrir fólk sem á þar leið um,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.
Andri segir að tímabært sé að endurnýja hitalögn í tröppunum til að auðveldara verði að halda þeim góðum allan veturinn, „og það þarf líka að laga lýsingu, handrið og fleira.“
Settur verður upp áningarstaður í brekkunni og góður stígur að Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar. „Eigendur Hótels KEA hafa keypt rýmið undir kirkjutröppunum og munu þeir gera miklar endurbætur á því og einnig taka þátt í kostnaði við endurbæturnar á tröppunum sjálfum,“ segir Andri.
Framkvæmdir fara fram yfir mesta háannatíma ferðamennskunnar í bænum og því telur ráðið mikilvægt að undirbúningur þessa verkefnis taki mið af því. Upplýsa þurfi ferðamenn um framkvæmdina og setja upp leiðbeiningar og upplýsingaskilti um hvernig komast megi leiðar sinnar innan bæjarins þegar eðlilegt væri að nýta kirkjutröppurnar.