„Þarna erum við orðin eftirbátur margra annarra sveitarfélaga“

„Mér finnst vera gríðarlega ábótavant í okkar sveitarfélagi að móta stefnu í íþrótta- og æskulýðsmál…
„Mér finnst vera gríðarlega ábótavant í okkar sveitarfélagi að móta stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum," segir Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs. Samsett mynd/epe

egillpall@vikubladid.is

Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs ritaði pistil sem birtist á vef Vikublaðsins í aðdraganda kosninga. Þar lýsti hann því hvernig honum þætti íþróttastarf ekki hafa fengið nægjanlegt rými í umræðunni í kosningabaráttunni. Blaðamaður Vikublaðsins ræddi við Jónas fyrir skemmstu þar sem hann sagði frá því hvað ný sveitarstjórn þyrfti að setja í forgang að hans mati.Jónas

Viðtalið við Jónas er í tveimur hlutum. Fyrir hluti sem hér fer á eftir birtist fyrst í  prentútgáfu Vikublaðsins 19. tölublaðið. Síðari hluti er að finna í  Vikublaðinu sem kom út sl. fimmtudag.. Þar er rætt við Jónas um uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja á Húsavík . 

 

 Stefnuleysi sveitarfélagsins

„Mér finnst vera gríðarlega ábótavant í okkar sveitarfélagi að móta stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum. Við erum orðin eftirbátur annarra þegar kemur að þessum þáttum. Stefnan þarf að innihalda raunstöðu eins og hún er í dag og í henni þarf að vera markmið um hvernig við viljum hátta málum til framtíðar. Þar að auki þarf að koma fram hvernig við ætlum að byggja íþróttamannvirki til frambúðar og hvernig við ætlum að viðhalda þeim mannvirkjum sem eru nú þegar til staðar,“ segir Jónas en tekur fram að hann hafi átt ágætt samstarf við fráfarandi sveitarstjórn Norðurþings um ýmis mál.

„Maður vill náttúrlega síður horfa í baksýnisspegilinn en ég hef átt gott samstarf við fráfarandi sveitarstjórn á undanförnum árum heilt yfir og góð samskipti við sveitarstjórann fráfarandi og ég óska honum velfarnaðar í því sem hann mun taka sér fyrir hendur,“ segir Jónas og bætir við að það þurfi að vera forgangsatriði hjá nýrri sveitarstjórn að hefja vinnu við mótun stefnu á íþrótta og æskulýðsmálum hjá sveitarfélaginu.

Jónas segir að stefnuleysi í íþrótta og æskulýðsmálum í sveitarfélaginu geri félagi eins og Völsungi erfirtt fyrir að skipuleggja starf sitt langt fram í tímann. „Ábyrg stefna í íþrótta og æskulýðsmálum þar sem gert er ráð fyrir fjárframlögum fram í tímann eru stóru þættirnir sem er ábótavant. Það myndi gera okkur hjá Völsungi kleift að  setja okkur langtímamarkmið um starfsemi félagsins. Þörfin er því mikil og nauðsynlegt að hefjast handa við þessa vinnu strax og ný sveitarstjórn er komin á laggirnar. Þarna erum við orðin eftirbátur margra annarra sveitarfélaga,“ útskýrir Jónas og bætir við að Völsungur hafi sent erindi á sveitarstjórn þar sem óskað var eftir því að þessi vinna myndi hefjast. „Þetta var í september árið 2019,“ segir hann.

Tímamót í íþróttastarfi

Síðustu mánuði hefur Norðurþing unnið að samþættingu skóla- og frístundarstarfs barna á Húsavík. KPMG hefur séð um verkefnastjórn og utanumhald verksins sem snertir leikskóla, grunnskóla, frístund og íþrótta-og tómstundafélög á Húsavík. Fjölskylduráð fjallaði nýlega um verkefnið og samþykkti að hefja það á haustdögum.

Jónas kvót

„Við erum á ákveðnum tímamótum í íþróttastarfi á Húsavík. Vinna er í gangi að samþættingu skóla-, tómstunda- og íþróttastarfs fyrir börn frá 5-9 ára. Hugmynd sem ýtt var úr vör af aðalstjórn Völsungs. Það verður gaman að vinna að þróun þessa verkefnis áfram og sjá það raungerast á haustdögum,“ segir Jónas, spurður út í verkefnið.

Jónas segir enn fremur að það hafi áður komið inn á hans borð ýmsar hugmyndir um slíka samþættingu í gegnum tíðina. „Ég hef verið meðvitaður um að það þyrfti fleiri að borðinu því samþættingin snýr að fleiri þáttum en bara íþróttastarfinu,“ útskýrir hann.

„Upphafið af þessari vinnu núna var þannig að mig langaði til að fá lendingu í þetta mál og fékk þá fræðslufulltrúa Norðurþings með mér í lið. Við ræddum þetta og höfðum síðan samband við KPMG og fengum þau til að teikna upp verkefnið. Búa það til í rauninni sem síðan var lagt fram í fjölskylduráð sem samþykkti að fara í verkefnið,“ segir Jónas.

 Spennandi til framtíðar

Jónas segir að stýrihópur um verkefnið fundi í þessari viku. „Þá vonandi verður sett andlitið á ákveðin hlutverk innan verkefnisins því það er stefnan að fara af stað með þetta verkefni nú í haust. Þetta verður talsverð breyting og að mínu viti mjög spennandi verkefni til framtíðar. Það er náttúrlega ekki verið að horfa á þetta til eins árs heldur til lengri tíma og er vonandi komið til að vera.“

Samþætting á þessu sviði er nýjung í Norðurþingi en Jónas segir að svipuðum verkefnum hafi verið ýtt úr vör víða annarsstaðar. „Ísafjarðarbær hefur oft verið nefndur í því sambandi. Svo eru Egilsstaðir að fara af stað með svipað verkefni. Hugmyndin er að þetta verði hluti af leiksskóla námi barnanna. Inn í leikskólann komi hreyfing og ákveðnar æfingar. Eins í Frístundinni að það verið íþróttir þar og það verði kynnt fyrir börnum hvað sé í boði af íþróttagreinum hjá Völsungi og í sveitarfélaginu. Að börnin muni svo velja sér íþróttagreinar síðar þegar búið er að kynna þeim allt íþróttastarf sem er í boði. Þannig viljum við tryggja að öll börn finni sér íþrótt við sitt hæfi. Hugmyndin er að vinndagur barnanna sé á milli kl. 8 og 16 á daginn, inn í því sé allt starfið og verði vonandi til þess að auka samverustundir með fjölskyldu eftir klukkan fjögur á daginn,“ segir Jónas að lokum.

 

Nýjast