Sæmþætting íþrótta- og skólastarfs gefist vel
Aðalfundur Völsungs fer fram 20. júní nk. en af því tilefni ræddi blaðamaður Vikublaðsins við Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóra félagsins en hann segir að rekstur íþróttafélaga á Íslandi hafi vaxið gríðarlega á undanförnum árum.
Jónas segir að það sé áhugavert að fara yfir tölur síðustu 10-15 árin en þar megi glöggt sjá að veltan hefur verið í stöðugum vexti. „Hjá okkur er velta félagsins síðan 2010-2011 búin að aukast um og yfir 100 milljónir. Þetta er kannski að meðaltali 7-8 milljónir sem veltan er að aukast á ári. Það er gríðarlega mikið,“ segir Jónas og bætir við að allt utanumhald hafi aukist mikið. „Íþróttafélagið er á fullri ferð áfram enda er veruleikinn í íþróttastarfi sá að ef menn eru ekki á leiðinni áfram, þá er það stöðnun og stöðnun er afturför. Umfangið hefur aukist gríðarlega en við erum að vinna þetta samt sem áður á jafn mörgum höndum og áður.“
Aðspurður segir Jónas að margar ástæður liggi á bak við aukið umfang í rekstri Völsungs, eitt af því sé einfaldlega aukin umsvif í íþróttastarfi. „Við erum náttúrlega komin með fleiri meistaraflokka sem er ánægjulegt og ef við tökum sem dæmi þá er Völsungur að fylla alla mánuði ársins í viðburðum fyrir bæjarbúa. Hvort sem það eru leikir í fótbolta, blaki eða einhverju öðru,“ segir Jónas og bætir við að auk þess sé allur kostnaður búinn að aukast gríðarlega hvort sem það er launakostnaður eða ferðakostnaður.
Samþætting að gefast vel.
Þá segir Jónas frá því að samþættingaverkefni yngstu barnanna sé að ganga vel og þegar sé hægt að greina árangur, en nú var að ljúka öðrum vetri verkefnisins.
Hér er Jónas að vísa til samstarfs á milli leikskólans Grænuvalla, Borgarhólsskóla, Frístundar og Völsungs um samþætt og heildstætt skóla- og íþróttastarf barna í tveimur elstu árgöngum Grænuvalla og fjórum yngstu árgöngum Borgarhólsskóla. Lagt er upp með að Íþróttaæfingar barnanna verði hluti af starfsemi Grænuvalla, Borgarhólsskóla og Frístundar og starfseminni sé lokið kl. 16.
Skilar sér í fjölgun iðkenda
„Í könnunum meðal foreldra þá er þetta verkefni að koma mjög vel út. Það er að mælast ánægja með þetta. Svo erum við að sjá merki þess að þetta sé að skila sér áfram inn í íþróttastarfið. Við erum að sjá töluverða aukningu í þátttöku námskeiða á vegum Völsungs fyrir þessa aldurshópa sem eru utan við samþættinguna,“ útskýrir Jónas og tekur dæmi um að áður en samþættingarverkefnið byrjaði þá hafi iðkendur á sumarnámskeiði Völsungs í 8. flokki í fótbolta verið að jafnaði 15 talsins. „Í könnun um samþættingarverkefnið svöruðu 49 að krakkarnir hefðu áhuga. Þannig að við erum að gera ráð fyrir á bilinu 40-50 leikskólabörnum á sumarnámskeið í fótbolta sem er gríðarlega góð þátttaka,“ segir hann jafnframt og leggur áherslu á að þarna séu öll börn í þessum árgöngum að fá hreyfingu og því sé um gríðarlegt framfaraskref í lýðheilsumálum að ræða.
Þetta snýst um það að tveir elstu árgangar í leiksskóla og tveir yngstu árgangar í grunnskóla fá íþróttaæfingar á leikskóla og frístundatíma. Og það eru öll börn í þessum árgöngum sem fara á þessar æfingar. Foreldrar þurfa ekki að skrá börnin, þau fara bara á æfingar í fylgd starfsfólks. Þannig að við erum að fara frá því að hreyfa kannski 15-20 prósent barna í leiksskóla í það að hreyfa alla,“ segir Jónas og á þar við tvo elstu árgangana.
Brýtur niður múra
Jónas er ekki í vafa um það að verkefnið sé að skila umtalsverðum árangri á breiðum vettvangi. „Við erum að slá margar flugur í einu höggi því að við kynnum íþróttagreinarnar sem eru í boði, við kynnum um leið félagið og svo erum við að stuðla að aukinni hreyfingu fleiri barna. Við erum að brjóta múra sem snúa meðal annars að fjárhag heimila. Norðurþing greiðir allan þjálfunarkostnað þannig að foreldrar eru ekki að greiða æfingagjöld,“ útskýrir Jónas og bætir við að verkefnið brjóti einnig múra sem snúa að nýjum íbúum sveitarfélagsins sem eru af erlendu bergi brotnir.
„Börn innflytjenda hafa ekki verið að skila sér nægilega vel í íþróttastarf og við höfum ekki verið að ná nægilega vel til þeirra. En með samþættingunni eru öll þessi börn að koma inn í íþróttastarfið og foreldrar fá þar með kynningu á því sem í boði er hjá Völsungi,“ segir Jónas og kveðst spenntur fyrir áframhaldinu.
„Þetta er annar veturinn sem við erum að klára í þessu samþættingarverkefni og við erum að sjá aukningu hjá þeim sem taka þátt í öðru íþróttastarfi og svo verður gaman að sjá eftir 2-3 ár þegar heill fjögurra ára árgangur er búinn að fara í gegn, hvað er að koma út úr þessu verkefni,“ segir Jónas að lokum.