Ný 100 km hlaupaleið í fjallahlaupinu Súlur Vertical

Hlaupið verður frá Goðafossi í Þingeyjarsveit í ár. Mynd/epe
Hlaupið verður frá Goðafossi í Þingeyjarsveit í ár. Mynd/epe

Í ár bætist ný og stórfengleg 100 km hlaupaleið við í fjallahlaupinu Súlur Vertical sem haldið er á Akureyri um verslunarmannahelgina. Greint er frá þessu á vef Þingeyjarsveitar.

Leiðin hefur fengið nafnið Gyðjan sem vísar til upphafsstaðar hlaupaleiðarinnar sem er við Goðafoss. Frá Goðafossi er hlaupið yfir Belgsárfjall yfir í Fnjóskadal. Slóðar og skógarstígar eru þræddir í gegnum Þórðastaðaskóg, Lundskóg og Vaglaskóg, hlaupið yfir gömlu bogabrúna og síðan haldið yfir í Eyjafjörð yfir Vaðalheiðina eftir Þingmannaleiðinni upp úr Systragili. Þaðan er hlaupið yfir leirurnar, upp í gegnum Kjarnaskóg upp á Súlur og áfram inn eftir fjallgarðinum inn í Lamba. Frá Lamba er hlaupið niður Glerárdalinn og inn í miðbæ Akureyrar þar sem hlaupið endar.

Hlauparar vinna þessa dagana að því í samvinnu við heimamenn og landeigendur að merkja leiðina yfir Belgsárfjall. Settar verða niður varanlegar stikur og í samvinnu við skógræktina hefur verið opnuð leið í gegnum skóginn Fnjóskadalsmegin. Með þessu verður til skemmtileg göngu- og hlaupaleið sem heimamenn og gestir geta farið um.

Hlaupið fer fram um verslunarmannahelgina og verða hlauparar ræstir við Goðafoss í tveimur hópum. Sá fyrri klukkan átta á föstudagskvöldi og sá seinni klukkan eitt um nóttina. Keppendur hlaupa því í gegnum Þingeyjarsveit um kvöldið og aðfaranótt laugardags. Gera má ráð fyrir að hlauparar séu tvo til þrjá tíma að hlaupa yfir Belgsárfjall og komi þá niður í Fnjóskadal þar sem hægt verður að sjá til þeirra og hvetja þegar þeir hlaupa í gegnum skógana og upp Þingmannaleiðina.

 

Nýjast