20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Martröðin sem ekki er talað um
Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur komið hvað harðast út úr Covid-19 faraldrinum.
Ýmis teikn eru á lofti um að viðspyrna ferðaþjónustunnar geti hafist fyrir alvöru um mitt sumar ef áætlanir um bólusetningar ganga eftir. Sú kynning sem Húsavík hefur aflað ferðaþjónustunni í gegnum Óskarsævintýrið verðu eflaust eins og eldflaugareldsneyti á þá viðspyrnu þegar gáttirnar ljúkast upp; sem og eldsumbrotin á suðvesturhorninu. Það eru margir sem eiga allt sitt undir, um allt land.
Enda er útlit fyrir það að ferðamenn muni streyma til landsins þegar aðstæður leyfa, sérstaklega frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndum. Áhugi á Íslandi er gríðarlegur um þessar mundir og ég leyfi mér að fullyrða að ferðaþjónustan muni blómstra fyrr frekar en síðar.
Eigendur fyrirtækjanna og stjórnvöld munu eflaust anda léttar svo ekki sé fastar að orði kveðið þegar ferðamannastraumurinn kemst á skrið um Leifsstöð. Það er þó annar hópur fólks sem liggur líklega á bæn um þessar mundir í von um að erlendir ferðamenn muni verða í meirihluta þetta sumarið. Það er starfsfólkið á gólfinu. Sérstakleg þau sem vinna við afgreiðslu og þjónustustörf. Á bak við bænirnar eru ekki aðeins hugtök eins og atvinnuleysi og hlutabótarleið. Nei, þetta starfsfólk óttast ekkert meira íslenskt ferðasumar.
Grátandi starfsfólk
Ferðasumrinu 2020 var bjargað af ferðaþyrstum Íslendingum sem tilneyddir þurftu að ferðast innanlands með peningana sem annars hefðu farið í hanastél á Tene; en mikill fjöldi Íslendinga ferðaðist um Norðurland. Eigendur veitinga og gististaða sögðust enda ánægðir með afkomuna miðað við ástandið.
Undir niðri kraumaði þó sannleikur sem enginn þorði að segja upphátt. Sannleikur sem nú nærir ótta þjónustufólks. Svo virðist nefnilega vera sem of stór hluti Íslendinga gleymi öllum mannasiðum um leið og það setur niður í ferðatösku. Starfsfólkið sem hafði það hlutverk að þjónusta þurftafreka Íslendinga hefur aldrei kynnst öðru eins álagi eins og síðasta sumar. Það er með ólíkindum framkoma sumra íslenskar ferðamanna. Yfirmenn hótela og veitingastaða þurftu ítrekað að veita grátandi starfsfólki sínu áfallahjálp eftir vaktir, sérstaklega um helgar. Verst var framkoman í garð erlends starfsfólks. Dæmi voru um að Íslendingar hreiðruðu um sig á hótellobbíum með sínar eigin áfengisbyrgðir, djömmuðu fram í roða; og virtu að vettugi öll tilmæli starfsfólks.
Meira að segja á bensínstöðvum og bakaríum þurfti starfsfólk að taka við skömmum frá frekum íslenskum ferðamönnum ef þjónusta sem þeir óskuðu eftir var ekki í boði. Og auðvitað máttu útlendingar þola niðurlægingu fyrir að kunna ekki fullkomna íslensku.
Það að greiða fyrir þjónustu gefur ekki frípassa á að haga sér eins og fífl. Virðing og kurteisi kostar ekkert en hagnaðurinn er ómetanlegur. Verum góð við hvor annað.
Gleðilegt ferðasumar.
- Egill P. Egilsson