KA vann bæjarslaginn
KA vann Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins 6-5 eftir vítaspyrnukeppni. Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið tvískiptur, Þór yfirspilaði KA í fyrri hálfleik og uppskáru tvö mörk sem Sigfús Fannar Gunnarsson og Aron Ingi Magnússon skoruðu og fóru með verðskuldaða forustu í hálfleik.
Það var hinsvegar eins og nýtt KA lið kæmi til leiks i síðari hálfleik, sóknir liðsins sífellt þyngri og þyngri og eitthvað hlaut að láta undan, Bjarni Aðalsteinssom skoraði fyrra mark KA og Daníel Hafsteinsson hið síðara skömmu fyrir leikslok.
Það var gripið til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit og þar hafði KA betur, skoruðu úr fjórum spyrnum en Þór úr þremur.
Þetta er sjöunda árið í röð sem KA hrósar sigri í þessu móti. Knattspyrnudómarafélag Norðurlands stóð fyrir mótinu sem endranær og var ákveðið að öll innkoma í kvöld rynni til Alzheimersamtakanna.
Áhorfendur létu sig ekki vanta þrátt fyrir kulda og þeir ásamt leikmönnum beggja liða einnig dómurum greiddu aðgangseyri og því ljóst að eitthvað skilar sér til samtakanna og það kemur sér eflaust mjög vel.