27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Hvað ætlar þú að verða?
Þegar ég var yngri leiddi ég oft hugan að því hvernig líf mitt yrði þegar ég yrði stór. Þessi típíska spurning sem börn fá „Hvað ætar þú að verða þegar þú verður stór“. Enn í dag spyr ég sjálfa mig þessarar sömu spurningar, en svörin við henni hafa tekið breytingum með aldrinum og kannski meiri vitsmunum. Þegar ég var yngri var svarið alltaf hjúkrunarkona, læknir eða lögga. Og ófáir leikir gengu út á það að lækna snigla eða orma. En því miður enduðu þeir yfirleitt líf sitt sem þurrkað skraut á stéttinni heima. Nei það var fljótt ljóst að ég átti ekki framtíð fyrir mér í þeim geira. En hvað var þá til ráða? Jú kellan skyldi bara vinna með blákaldar tölur og fara inn í þetta fína ferkantaða box sem tölur tilheyra. Já það var rétta leiðin fyrir mig.
En nú vandaðist málið. Daman sem gat ekki einu sinni haldið lífi í ormum og sniglum ákvað að stofna fjölskyldu. Hvað var hún að hugsa? Þessi börn koma ekki með notenda eða tölulegum upplýsingum og langt því frá eitthvað sem passar í fyrir fram ákveðið box sem daman gat búið til. Þegar komið var heim af fæðingardeildinni átti maður bara að detta í gírinn og kunna allt. Ég var með lífið í lúkunum alla daga. Hugsandi til allra dýranna sem hefðu endað ævi sína á stéttinni heima. Ég þurfti að læra þetta og vera snögg að því. Fæðingarorlof er sko ekkert orlof. Það er full vinna og fyrir svona „amatör“ eins og mig þá var þetta eins og 150% vinna að halda lífi í afkvæminu. En sem betur fer þá eldist maður og vitkast með árunum og lærir að hugsa um þessa unga sína. Þó svo þeir séu sérfræðingar að koma með krefjandi áskoranir fyrir móður sína.
En nú fara þeir að fá þessa sömu spurningu og ég var spurð þegar ég var yngri. „hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór“. Ég ætla að benda þeim góðlátlega á að sama hvað þeir ætla sér að verða forritari, tölvuleikjaframleiðandi, Youtuber eða eitthvað slíkt, þá munu þeir alltaf vera í umönnunarhlutverki ef ætlun þeirra er að eignast börn svo það er eins gott að þeir geti haldið lífi í þessum ormum og sniglum ólíkt mömmu sinni.
En er ég orðin stór? Get ég hætt að spyrja mig þessarar spurningar? Mér finnst ég ekki orðin stór og sé sjálfa mig alltaf sem þessi litla stelpa sem reyndi hvað hún gat að halda lífi í sniglunum. Ég get langt því frá hætt að spyrja mig þessarar spurningar. Ef ég spyr mig þessarar spurningar í dag held ég að svarið mitt yrði engu að síður það sama og áður. Tölur eru mitt áhugamál. Ég held að enginn hefði viljað fá mig inn á spítala eða í aðhlynningu á einhvern hátt. En hvað framtíðin ber í skauti sér veit enginn. En aftur á móti held ég að ég hefði haft gott því að fá einn áfanga í umönnun og uppeldi það hefði kannski létt manni lífð eða hvað...