Hús vikunnar: Eyrarlandsstofa

Drjúgur hluti  þéttbýlis Akureyrar, sunnan Glerár, er að mestu í landi forns stórbýlis, Stóra – Eyrarlands. Gagnfræðaskólinn (nú Menntaskólinn) var reistur árið 1904 í túni Eyrarlands og fáeinum árum síðar voru fyrstu tré Lystigarðsins gróðursett fast við Eyrarlandsbæinn. Bæjarstæði Stóra – Eyrarlands var þar sem nú eru bílastæði Sjúkrahússins. Þar var reist, um miðja 19. öld, Eyrarlandsstofa og er það eitt Eyrarlandshúsa sem enn stendur. Húsið var flutt á núverandi stað í sunnanverðum Lystigarðinum árið 1987.

Eyrarlandsstofa er talin byggð 1848 og hönnuður hússins hinn valinkunni hagleikssmiður Þorsteinn Daníelsson, kenndur við Skipalón. Þá bjuggu á Stóra – Eyrarlandi þau Magnús og Geirþrúður Thorarensen.

Eyrarlandsstofa er einlyft timburhús  með háu risi, ca. 5,5x9,5m að grunnfleti og  stendur húsið á steyptum grunni. Veggir klæddir slagþili en rennisúð á þaki og sexrúðupóstar eru í gluggum. Stóra – Eyrarland var  frá fornu fari mikil kostajörð og henni tilheyrði m.a. hálfur Glerárdalurinn og Stórhólmi við ósa Eyjafjarðarár. Árið 1893 keypti Akureyrarkaupstaður Stóra – Eyrarland  með það að markmiði, að eignast byggingarland. Áratugir liðu hins vegar, uns þéttbýlismyndum varð að ráði á Brekkunni. Áfram var stundaður búskapur en síðasti ábúandi Stóra – Eyrarlands, Jón Helgason, bjó þar til dánardægurs, 1956. Búskapur á býlinu hafði hins vegar lagst af  áratugum fyrr, enda raunar sjálfhætt með uppbyggingu þéttbýlis er líða tók á 20. öldina.

Eyrarlandsstofa var íbúðarhús lengi vel en einnig var húsið nýtt af Sjúkrahúsinu. Um og upp úr 1980 komu fram hugmyndir um að flytja Eyrarlandsstofu inn í Lystigarð. Flutningur hússins fór fram, sem áður segir, árið 1987 og var það í kjölfarið endurbyggt af miklum myndarbrag. Miðuðust endurbætur við að færa húsið til upprunalegs horfs að ytra byrði, m.a. blikk- og járnklæðningu skipt út fyrir slagþil og rennisúð.  Nú er Eyrarlandsstofa sannkölluð garð- og bæjarprýði.  Eyrarlandsstofa er nýtt sem starfsmannaaðstaða fyrir starfsfólk Lystigarðsins. Húsið var friðlýst árið 1990. Myndin er tekin þann 9. ágúst 2011.

Nýjast