13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hjartað í miðbænum vígt
Vígsluhátíð á Hjartanu í miðbæ Akureyrar fór fram sl. helgi þar sem veglegt hjarta var formlega afhúpað. Hönnun á verkinu er Úlfar Gunnarsson en Arnar Friðriksson smíðaði gripinn.
Þórhallur Jónsson, formaður miðbæjarsamtakanna á Akureyri, kynnti Hjartað til leiks á hátíðinni að viðstöddum fjölda bæjarbúa. Þórhallur segir hugmyndin af hjartanu á Akureyri ekki vera nýja af nálinni.
„Akureyringar sýndu mikla samkend í hruninu 2008 og var hjartað víða notað sem sameiningartákn bæjarbúa. Margrét Blöndal vinkona mín kom svo hjartanu í stöðvunarljósin í umferðaljósunum eina verslunarmannahelgina fyrir um 11-12 árum síðan eins og þekkt er orðið og er það orðið eitt mest myndaða kennileiti bæjarinns, nema þá ef gæti verið að Akureyrarkirkja væri meira mynduð enda stórglæsilegt meistaraverk Guðjóns Samúelssonar,“ sagði Þórhallur við athöfninni.
Hann ásamt Úlfari Gunnarssyni kaupmanni í Centro hafa lengi gengið með þá hugmynd í kollinum að gera enn meira úr Hjartanu. „Nú er svo komið að loks var hægt að láta verða af þessu í góðri samvinnu við Akureyrarbæ og með rausnarlegum styrk úr sóknaráætlun SSNE. Það er von okkar að þetta hjarta eigi eftir að vekja mikla athygli og að engin fari hér í gegnum bæinn okkar án þess að koma við og taka mynd af sér við hjartað. Einnig vonum við að hasstaggið okkar #loveakureyri eigi eftir að auglýsa Akureyri um allan heim og vekja enn meiri athygli á okkar fallega bæ,“ sagði Þórhallur og bætti við að þetta verk væri upphafið af ýmsu skemmtilegu sem koma skal í miðbænum á Akureyri í sumar.