Hinsta kveðja frá Í.F. Völsungi
Við Völsungar kveðjum nú Vilhjálm Pálsson sem var einn af máttarstólpum og forystumönnum innan Í.F. Völsungs. Vilhjálmur Pálsson eða Villi Páls eins og hann var alltaf kallaður er fallinn frá, 95 ára gamall. Villi var íþróttakennari við barna-og gagnfræðaskólann auk þess að kenna við Framhaldskólann á Húsavík. Hann starfaði hjá félaginu í áratugi og þegar starfsvettvangi lauk fylgdist hann með og var ávallt mættur á leiki hvort sem var út á velli eða í höllina. Villi var “faðir blaksins“ á Húsavík en hann byrjaði að kenna íþróttina í skólaleikfimi árið 1968. Síðan þá hefur þessi íþrótt verið ein aðalíþróttagrein félagsins og margir meistartitlar unnist í gengum árin. Hann hafði afgerandi áhrif á nemendur sína sem síðan sköruðu framúr í íþróttum fyrir félagið í hinum fjölmörgu íþróttagreinum.
Villi var aðeins 13 ára gamall þegar hann tók að sér fyrsta verkefnið fyrir félagið er hann gerðist áhaldavörður sem var mikilvægt starf í þá daga. Síðan þá hefur Villi komið mjög víða við innan félagsins, sem íþróttamaður, þjálfari og stjórnarmaður. Má þar nefna að árið 1946 tók hann sæti í skíðadeildinni og starfaði þar lengi. Lengst af sat Villi í aðalstjórn Völsungs bæði sem aðal- og varamaður en hann tók fyrst sæti í stjórn félagsins árið 1949, hann sat í stjórn félagsins eftir það í áratugi og var formaður árin 1957-1958 og 1991-1993.
Villi fór í íþróttakennaraskólann að Laugarvatni 1949-50 og hóf að kenna íþróttir við skólana á Húsavík árið1956. Síðustu árin kenndi Villi við Framhaldsskólann á Húsavik. Villi var íþróttakennari við skólann í um 35 ár.
Sem unglingur æfði Villi íþróttir og keppti fyrir félagið og HSÞ. Helstu greinar hans voru frjálsar íþróttir, knattspyrna og skíði. M.a. keppti Villi fyrst á Landsmótinu að Laugum 1948. Þá var hann sýsluþjálfari HSÞ árin 1950-1952 og ferðaðist um héraðið frá dölum til fjarða á mótorhjóli og kenndi ungu fólki íþróttir. Villi var stjórnarmaður HSÞ um nokkur árabil og sat í landsmótnend HSÞ fyrir mótið sem fram fór hér á Húsavík árið 1987.
Villi var ötull stuðningsmaður byggingu fyrsta íþróttahússins á Húsavík og var salurinn við Barnaskólann eitt af hans baráttumálum en með tilkomu íþróttasalarins haustið 1959 hófst nýtt framfaraskeið íþrótta á Húsavík. Villi var einn af þeim þjálfurum innan félagsins sem lagði metnað sinn í að byggja upp framtíðaríþróttafólk innan Völsungs. Því á árunum 1960 -1980 urðu Völsungar margfaldir Íslandsmeistarar í hinum ýmsu íþróttagreinum. Grunnurinn var lagður með bættri aðstöðu og þjálfun sem skilaði sér í afreksíþróttafólki á landsvísu.
Villi var fyrsti formaður handknattleiksdeildar félagsins frá 1962-1966 auk þess að þjálfa. Skíðaíþróttin var honum hugleikin og hélt hann skíðanámskeið á hverjum vetri fyrir alla nemendur skólanna. Þessi námskeið sköpuðu afreksfólk á skíðum og áttu Völsungar marga frábæra skíðamenn. Þá var Villi fyrsti þjálfari meistarflokks Völsungs árið 1967 sem tók þátt í deildarkepppni í knattspyrnu. Auk þess að þjálfa meistarflokkinn þá var hann með fyrstu þjálfurum félagsins hjá yngri flokkum í knattspyrnu.
Villi Páls kom víða við og var m.a. þjálfari hjá sigursælum blakliðum sem urðu Íslandsmeistarar. Hann var baráttumaður fyrir bættri aðstöðu fyrir félagið og gerði sér fljótt grein fyrir mikilvægi íþrótta og hreyfingu fyrir samfélagið. Sem íþróttakennari í marga áratugi mótaði hann börn og unglinga til heilsusamlegs lífernis og hvatti þau til þátttöku í íþróttum og hreyfingu. Villi hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir framlag sitt til íþróttastarfs frá sérsamböndum, ÍSÍ, UMFÍ, HSÞ og Í.F. Völsungi.
Völsungar senda aðstandendum innilegar samúðarkveðjur um leið og við þökkum Villa Páls fyrir allt það sem hann hefur lagt að mörkum fyrir komandi kynslóðir á vettvangi íþrótta á Húsavík.
Minning um öflugan og góðan Völsung mun lifa.
F.h. Í.F. Völsungs
Sögunefnd Völsungs