Hestamót haldið eftir langt hlé

Þessir knáu knapar röðuðu sér í þrjú efstu sætin í B- flokki gæðinga eitt árið á Melgerðismelum. Hös…
Þessir knáu knapar röðuðu sér í þrjú efstu sætin í B- flokki gæðinga eitt árið á Melgerðismelum. Höskuldur Jónsson á Huldari frá Sámsstöðum, Stefán Birgir Stefánsson á Mirru frá Litla-Garði og Sveinn Ingi Kjartansson á Leiru frá Naustum lll.

mth@vikubladid.is

„Undanfarin ár hafa verið erfið til mótahalds hjá hestamönnum eins og svo margt annað,“ segir Jónas Vigfússon hjá Hestamannafélaginu Funa í Eyjafjarðarsveit.

Funi gat til að mynda ekki fagnað 60 ára afmæli sínu á liðnu ár vegna heimsfaraldurins, en nú eru breyttir tímar. Blásið verður til mótahalds á Melgerðismelum um helgina, dagana 13. og 14. ágúst. Þar verður gæðingakeppni, töltkeppni og kappreiðar og mikil eftirvænting ríkjandi eftir langt hlé.

Keppt verður í A- og B-flokki gæðinga, B flokki ungmenna og unglinga- og barnaflokki. Þá verður keppt í tölti T3 og kappreiðum. Í  kappreiðum verður keppt í 100 m flugskeiði, 150 m og 250 m skeiði, 300 m brokki og 300 m stökki. Kappreiðarnar verða úr  startbásum og tímatakan rafræn.

Jónas segir mótssvæðið á Melgerðismelum skjólsælt og fallegt. Til stendur að vera með grill þar á laugardagskvöldið, „og við ætlum okkur að skapa góða stemmningu í sveitinni,“ segir hann og bætir við að nægt pláss sé fyrir bæði hross og menn í beitarhólfum og á tjaldsvæði. „Það verður enginn svikinn af því að líta við á Melgerðismelum um helgina og sjá falleg hross sýna kosti sína.

Nýjast