20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hákarlar í návígi á Skjálfanda
Farþegar á rib bátum Gentle Giants hvalaferða á Húsavík fengu heldur betur óvæntan glaðning þegar þeir voru í hvalaskoðun á Skjálfanda í vikunni. Eftir að hafa skoðað hnúfubaka lungað úr ferðinni fengu farþegarnir óvænta hákarlaskoðun í kaupbæti, þegar beinhákarlar ákváðu að sýna þeim listir sínar. Og ekki einu sinni heldur tvisvar í sömu ferðinni.
Hallgrímur Guðmundsson, skipstjóri lýsti upplifuninni sem lygilegri en það er mjög óalgengt að beinhákarla sjáist svo nálægt yfirborði.
Hallgrímur segir í samtali við Vikublaðið að hann hafi tvisvar stoppað til að skoða beinhákarla, einu sinni á miðjum túr en svo aftur rétt áður en komið var til hafnar og þeir hafi virst alveg ófeimnir.
Í fyrra skiptið kom Reynir Hilmarsson, skipstjóri á öðrum rib-báti GG hvalaferða að og voru myndbönd tekin frá báðum bátunum sem skoða má hér fyrir neðan og annað myndband neðst í fréttinni.
Ótrúlegt návígi
„Þegar við vorum saman að skoða annan þeirra og hann fór undir bátinn hjá Reyni,- þá bjóst ég bara við því að hann myndi hverfa, en nei nei. Hann kom upp hinu megin og seinni hákarlinn, sem ég var að skoða einn, gerði þetta mörgum sinnum. Hann kom að bátnum og undir hann og maður hélt að hann myndi rekast á bátinn en nei, undir og upp hinu megin. Þetta var stórfurðulegt,“ segir Hallgrímur og bætir við að hann hafi aðeins einu sinni lent í þessu áður á löngum sjómanns ferli en þessi 62 ára gamli skipstjóri hefur stundað sjóinn frá 14 ára aldri.
„Það var árið 2017, þá fann ég þetta á djúpavatninu rétt austan við Flatey. Þetta eru einu tvö skiptin sem ég hef séð þetta og ég byrjaði á sjó 14 ára,“ segir hann.
Samkvæmt Wikipedia er beinhákarl (Cetorhinus maximus) ein næststærsti fiskur heims og sá stærsti við Íslandsstrendur. Beinhákarlinn getur orðið allt að 12 metra langur, finnst í öllum heimshöfum og er algengur við Ísland.
Þrjár tegundir hákarla eru ekki ránfiskar heldur nærast á svifi og er beinhákarlinn einn þeirra.
Greinilega í átu
Hallgrímur segir að hákarlarnir hafi greinilega verið í átu og þrátt fyrir nálægðina hafi farþegar ekki verið hræddir, en ákaflega spenntir. „Þeir voru klárlega í átu. Þeir voru að synda með opinn kjaftinn og búið að vera ofboðslega mikið æti. Þeir eru klárlega að éta eitthvað. En það er mjög óalgengt að þeir komi svona ofarlega til að éta,“ segir Hallgrímur og lýsir gríðarlegu spennustigi hjá farþegum.
Hátt spennustig en enginn hræddur
„Fólk var alveg gríðarlega spennt fyrri þessu. Alls ekki hrætt þó þeir væru bara 10 cm frá okkur með galopinn kjaftinn. Ég gæti trúað því að þetta hafi verið svona 9 metra löng kvikindi miðað við lengdina á bátunum. Farþegarnir trúðu því eiginlega ekki að þeir væru að lenda í þessu og svo í seinna skiptið þá greip fólk bara um höfuð sér og hrópaði: „Í hverju erum við lent?“. Þetta er mjög skrítið,“ segir Hallgrímur af innlifun.
Þá segir hann að þessi nýju kynni af stærsta fiski við Íslandsstrendur hafi verið mun nánari en þau sem hann stofnaði til árið 2017.
„Þá var ég að vanda mig við að fara ekki of nálægt til að fæla hann ekki frá, þannig að við næðum að sýna hann eitthvað. Maður sá bara bakuggan og efri partinn af sporðinum, eins og hann væri V-laga. Ég hélt fyrst að þetta væri bara eitthvað rusl á sjónum og ætlaði að pikka það upp, en nei nei, þá var þetta bara hákarl. Þetta leit út fyrir að vera tvö aðskilin dýr. Svo hvarf sá, fór einhverja tvo þrjá hringi í kringum okkur og hvarf. En þessir um daginn voru alveg ótrúlega lengi að dóla í kringum bátinn. Ég gæti trúað að við höfum verið með þennan seinni í einhverjar 15 mínútur og þá fórum við bara heim en þó var hann enn þá uppi,“ segir Hallgrímur
Farþegarnir komu alsælir land að sögn Hallgríms enda búin að upplifa sannkallaða drauma siglingu.
„Þeir voru búnir að horfa á fullt af hnúfubökum og fá svo hákarla í bónus. Þetta var alveg lygilegt,“ segir Hallgrímur að lokum.