27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Frábær frammistaða krakka í Sundfélaginu Óðni
Sundfélagið Óðinn sendi vaska sveit til keppni á Íslands og Unglingameistaramótinu i sundi í 25 metra laug sem fram fór í Ásvallalaug í Hafnarfirði um nýliðna helgi. Óhætt er að segja að árangur keppenda frá Óðni hafi verið góður því sjö sinnum syntu keppendur frá félaginu til úrslita og ein verðlaun unnust. Annars er freistandi að gefa fréttaritara félagsins ,,orðið“ og hér kemur lífleg færsla hans.
,, Áfram Óðinn!
Akureyringar geta heldur betur verið stoltir af sínum fulltrúum á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25m laug um helgina! Hérna eru einungis nokkrar ástæður fyrir því;
- Þrátt fyrir að æfa, frá blautu barnsbeini, við gjörólíkar aðstæður tókst þessum snillingum í Óðni að komast sjö sinnum í úrslit og vinna til einna verðlauna!
- Þau ýmist slepptu skóla, redduðu fríi í vinnu eða keyrðu um miðja nótt til að keppa á mótinu!
- Bættir tímar á mótinu eru fjölmargir og staðfesta sundmannanna okkar í að synda sama hvað er ekkert nema aðdáunarverð
- Seigla, liðsheild og gleði einkennir Óðinsmenn meira en flest annað!
- Þau gera æfingarnar, starfið og umhverfi sitt skemmtilegra bara með því að taka þátt og vera á svæðinu
(Ef þetta eru ekki góð rök fyrir bættri aðstöðu fyrir okkar unga fólk þá vitum við ekki hvað…)
Hver sem er má deila þessari gleði!
Áfram Óðinn!“