Fjármögnun tryggð í nýja flugstöð

Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.
Akureyrarflugvöllur. Mynd/Hörður Geirsson.

Fjármögnun hefur verið tryggð fyrir nýtt flughlað og nýja flugstöð á Akureyri. Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Eins og frá var greint í síðasta blaði eru framkvæmdir við fyrsta áfanga flughlaðs á Akureyrarflugvelli hafnar og á áætlun að hefja viðbyggingu við flug­stöðina á Ak­ur­eyr­arflug­velli ásamt hönn­un breyt­inga á nú­ver­andi flug­stöð til að mæta auk­inni þörf vegna milli­landa­flugs.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia,sagði í svari við fyrirspurn blaðsins að vonandi yrði hægt að bjóða byggingu flugstöðvarinnar út í febrúar á næsta ári en bætti við að það ylti á fjárveitingum til verksins. Njáll Trausti bendir á að að þessi verkefni voru ekki fyrir í samgönguáætlun heldur í tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak sem lagt var fram af fjármálaráðherra í vor.

„Samkvæmt áætluninni koma 18 milljarðar strax til m.a. samgöngumannvirkja og annarra innviðaverkefna. Þar af voru 200 millj. kr. í hönnun á stækkun flugstöðvarinnar og 315 millj. kr. í flughlaðið,“ segir Njáll Trausti. Áætlað er að um 50 ársverk munu skapast við framkvæmd flugstöðvarinnar og 40 ársverk yrðu til við stækkun á flughlaði. Mark­mið fram­kvæmd­anna er að bæta aðstöðu og þjón­ustu við flug­f­arþega.

Í framhaldi af því að fjármagn fékkst til þessara tveggja verkefna í fyrsta fjárauka ársins fóru verkefnin inn í nýja samgönguáætlun sem samþykkt var í þinginu í júní. Fullnaðarfjármögnun flugstöðvarbyggarinnar og við flughlaðið kemur síðan í gegnum fjárfestingarplanið sem var kynnt í vor fyrir næstu þrjú ár, 2021-2023 og verður afgreitt í þinginu þegar það kemur aftur saman í haust.

Nýjast