Enski boltinn um hátíðirnar Hvernig er best að koma boltanum fyrir í skipulaginu?
Enski boltinn er mikið áhugamál margra Íslendinga og þú finnur vart íslenskan knattspyrnuáhugamann sem heldur ekki með einhverju liði í ensku Úrvalsdeildinni. Sú hefð hefur skapast í enska boltanum að spilað er meira og þéttar í kringum hátíðirnar, öfugt við margar aðrar deildir í Evrópu sem taka yfirleitt pásu á þessum tíma ársins. Þetta er almennt gleðiefni fyrir íslenska knattspyrnuáhugamanninn þar sem hann fær að sjá meira af sínu liði, en flestir þurfa að fara varlega hvað það varðar að knattspyrnugláp hafi ekki áhrif á tíma þeirra með fjölskyldunnni.
Jóhann Már Helgason er knattspyrnusérfræðingur og meðlimur í vinsæla hlaðvarpsþættinum Dr. Football. Hann er mjög hrifinn af þessari hefð og segir að ef enska deildin myndi taka upp vetrarfrí eins og margar aðrar deildir gera, myndi hreinlega eitthvað vanta í hátíðarhöldin.
Á fótboltinn að vera hluti af hátíðarhöldunum?
Jóhann segir að það séu skiptar skoðanir á því hversu mikið eigi að horfa á fótbolta um hátíðirnar og þeir sem hafa lítinn áhuga geti orðið pirraðir á sjónvarpsglápinu.
„Hér skiptist samfélagið í tvær fylkingar. Við sem fylgjumst með fótbolta og teljum fótboltann vera part af jólahaldinu og hina sem vilja ekki heyra á þetta minnst. Þarna eru stóru átakalínurnar hin illræmdu jólaboð á öðrum degi jóla. Við fótboltafíklarnir viljum leggja þau af, á meðan að restinni af samfélaginu finnst þetta voða mikilvægt. Það er óhætt að fullyrða að þessi deila er í miklum hnút á mörgum heimilum landsins,“ segir Jóhann en það er einmitt á dögum eins og öðrum degi jóla þar sem menningarmunurinn á milli landa segir til sín.
Jóhann Már Helgason knattspyrnusérfræðingur
Annar dagur jóla eða „Boxing day“
Á Íslandi er annar dagur jóla ekkert sérstaklega merkilegur hátíðsdagur. Eins og Jóhann minntist á, er þetta dagur sem margir ákveða að fara í jólaboð til hinna ýmsu ættingja og vina sem fólk var ekki með á jóladag eða aðfangadag. Í Englandi er sami dagurinn hins vegar haldinn hátíðlegur á annan hátt.
Dagurinn er kallaður „Boxing day“ en nafnið er u.þ.b. 200 ára gamalt og er talið hafa komið frá Charles Dickens. Hátíðin sem slík er hins vegar enn eldri en 26. desember var almennt sá dagur sem yfirstéttin gaf þjónustufólkinu sínu jólagjafir og gaf þeim frí til að vera með fjölskyldunni þar sem þau voru öll að vinna á jóladag.
Ástæðan fyrir því að Bretarnir fagna þessum degi með knattspyrnu nú til dags er einföld. Áður fyrr var mikið spiluð knattspyrna á jóladegi og öðrum degi jóla sem þýddi þá oft tveir dagar af fótbolta í röð fyrir marga leikmenn. Þetta var gert því að knattspyrna var lágstéttaríþrótt og það þyrfti að koma fyrir leikjum þar sem leikmenn og áhorfendur væru í fríi frá vinnunni.
Á 6. áratug 20. aldar var hins vegar sett bann á að spila á jóladegi þar sem dagurinn var álitinn vera fjölskyldudagur. Síðan þá hefur hefðin alltaf verið sú að það er ekkert spilað á jóladegi en alltaf spilað á öðrum degi jóla.
Hvernig er best að koma fótbolanum fyrir?
Jóhann er stuðningsmaður Chelsea en í ár spilar liðið á aðfangadag. Það þykir Bretanum ekkert svo skrýtið en aðfangadagur er líkast til heilagasti dagur okkar Íslendinga um hátíðirnar. Það gæti því orðið erfitt að búa sér til tíma til að horfa á fótbolta á þessum degi þegar fjölskyldan vill spila spil eða borða jólagrautinn.
„Betri helmingurinn, konan mín, fylgist ekkert með fótbolta og á frekar erfitt með að skilja allt þetta boltahjal í mér. Hún heldur ennþá að hér sé um eitthvert grín að ræða, ekki nokkrum manni detti í hug að spila á aðfangadegi jóla. En það skal viðurkennt að ég er búinn að aðlaga mínar aðfangadagshefðir að þessum leik sem byrjar kl 13:00. Samningaviðræðurnar við betri helminginn standa ennþá yfir, ég er samt að verða bjartsýnni með að þær viðræður skili tilsettum árangri og að ég nái að horfa á leikinn beint,“ segir Jóhann.
Hann hefur einnig nokkur ráð fyrir þá sem þurfa að sannfæri hina og þessa fjölskyldumeðlimi. „Ég mæli með að vera sem virkastur í að skipuleggja hlutina og dagskrá fjölskyldunnar. Bara þannig nær maður að hafa eitthvað um hlutina að segja. En þegar hlutinir ganga einfaldlega ekki upp og maður játar sig sigraðan, þá er neyðarúrræðið mitt að slökkva á símanum, halda mig frá öllum úrslitum, og horfa á leikina í gegnum tímaflakkið á sjónvarpinu.“
Stuðningsmenn Liverpool á góðum degi