Endurnýjun á veggjum Akureyrarkirkju á lokametrunum

Þegar framkvæmdum lýkur verður Akureyrarkirkja áfram sú prýði í bæjarmyndinni og hún á að vera, segi…
Þegar framkvæmdum lýkur verður Akureyrarkirkja áfram sú prýði í bæjarmyndinni og hún á að vera, segir formaður sóknarnefndar.

Framkvæmdir standa yfir á norðurhlið Akureyrarkirkju og er áætlað að þær taki nokkrar vikur. Um er að ræða nýtt efni á ytri byrði kirkjunnar en viðgerðir á kirkjunni hófust fyrir ári síðan vegna skemmda sem unnar voru veturinn 2017 er spreyjað var á kirkjuna allskyns ófögrum orðum sem sneru flest að andúð á trúarbrögðum og heimspeki.

Mest var spreyjað á framhlið og suðurhlið kirkjunnar. Búið er að klára viðgerðir á þeim hliðum og með framkvæmdunum nú er að mestu lokið við endurnýjun á ytra byrði kirkjunnar. Sóknarnefnd Akureyrarkirkju sótti um fjárstyrk til Jöfnunarsjóðs kirkjunnar og húsfriðunarsjóðs Minjastofnunar Íslands vegna skemmdanna og var tjónið í heild sinni metið á um 18 milljónir króna en styrkir frá Jöfnunarsjóði kirkna og Húsafriðunarsjóði eru 9,5 milljónir króna. Keypt var efni til viðgerða á allri kirkjunni.

„Í fyrra var klárað að gera við skemmdirnar sem unnar voru á kirkjunni og það var augljóst að það myndi hafa í för með sér breytta ásýnd á húsinu. Því var ekki hjá því komist að okkar mati að halda áfram og klára verkið til að sýna húsinu þá virðingu að það yrði ekki hálfklárað,“ segir Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju.

Hann segir að þegar efnið var keypt hafi verið hugsað til þess að hægt yrði að klára verkefnið í heild. „Þegar þessum framkvæmdum lýkur verður kirkjan áfram sú prýði í bæjarmyndinni og hún á að vera,“ segir Ólafur Rúnar.

 

Nýjast