27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ásgerður Jana Íslandsmeistari
Ásgerður Jana Ágústsdóttir vann Íslandsmeistaratitil á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum er hún stórbætti árangur sinn í flokki 17-18 ára en mótið fór fram á Selfossi sl. helgi. Hún hlaut alls 4694 stig, sem er um 600 stiga bæting, og tryggði sér í leiðinni þátttökurétt á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum sem fram fer í Sandnes í Noregi um miðjan júní. Tveir aðrir keppendur frá UFA kepptu á Selfossi. Rakel Ósk Björnsdóttir vann silfurverðlaun í sjöþraut kvenna með 3603 og Stefán Þór Jósefsson hlaut einnig silfurverðlaun í flokki 18-19 ára pilta með 5304 stig.
Þá er það einnig að frétta úr herbúðum UFA að Hafdís Sigurðardóttir hafnaði í fjórða sæti í langstökki á alþjóðlegu móti í Florö í Noregi sl. helgi er hún stökk 4,16 m. Þá var hún einnig í boðhlaupssveit Íslands í 4x400 m hlaupi sem vann til bronsverðlauna á mótinu, en sveitin kom í mark á tímanum 3:44,69 mín. Þetta mun vera besti tími hjá íslenskri boðhlaupssveit kvenna í fimmtán ár. Auk Hafdísar voru þær Aníta Hinriksdóttir ÍR, Fjóla Signý Hannesdóttir HSK og Stefanía Valdimarsdóttir úr Breiðabliki í sveitinni.