27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Anna María með besta árangur Íslendings á heimslista
Heims- og Evrópulisti World Archery var uppfærður í dag eftir heimsbikarmótið í París og Anna María Alfreðsdóttir 19 ára bogfimikona úr Íþróttafélaginu Akri á Akureyri er þar í 60 sæti á heimslista og 30 sæti á Evrópulista. Það er einnig hæsta sæti á heims- og Evrópulista sem Íslendingur hefur náð í íþróttinni hingað til. Það er vefmiðillinn Bogfimi.is sem greinir frá.
Anna byrjaði sterk á þessu ári með 4 sæti á EM innandyra (U21) í Febrúar í Slóveníu og svo þriðja sæti á Veronicas Cup World Ranking Event í maí í Slóveníu. Á EM utandyra í Munchen í júní endaði hún í 17 sæti og svo í 33 sæti á heimsbikarmótinu í París í júní. Á EM og heimsbikarmótinu var Anna slegin út í lokakeppni með naumum mun á móti keppendum frá Kóreu og Tyrklandi. Kórea og Tyrkland eru einu tvær þjóðirnar sem unnu til gull verðlauna á síðustu Ólympíuleikum og meðal sterkustu bogfimiþjóða í heiminum.
Anna er næst hæst Norðurlandabúa á heimslista í trissuboga kvenna og er á hraðri uppleið. Samtals eru 12 Norðurlandabúar meðal 300 efstu á heimslista trissuboga kvenna, af þeim 12 eru 6 Íslendingar. Ísland er með annað sterkasta trissuboga kvenna lið á Norðurlöndum í 30 sæti á heimslista og 13 sæti á Evrópulista á eftir fyrrum heims- og Evrópumeisturum Danmörku sem verma 17 sæti á heimslista og 9 sæti á Evrópulista miðað við stöðuna í dag. Topp þrjár konur á Norðurlöndum eru:
- Tanja Gellenthien – Danmörk (8)
- Anna María Alfreðsdóttir – Ísland (60)
- Natasha Stutz – Danmörk (85)
Anna er áætluð til keppni í tveim landsliðsverkefnum ungmenna til viðbótar það sem eftir er af utandyra tímabilinu 2022, þar sem hún stefnir að því að vinna til verðlauna með U21 liðinu. En það mun ekki hafa áhrif á stöðu Önnu á heimslista þar sem ekki eru gefin stig á heimslista fyrir þau mót. Stig á heimslista eru aðeins gefin til þeirra íþróttamanna sem komast í topp 64 sæti á alþjóðlegum stórmótum í opnum flokki (fullorðinna) s.s. HM/EM, heims- og Evrópubikarmótum og þau stig gilda í 2 ár. Aðeins eitt mót er eftir af þessu ári sem gefur stig á heimslista sem er heimsbikarmótið í Medellin Kólumbíu, en ólíklegt er að það hafi mikil áhrif á stöðu Önnu á heimslista þó að hún sé ekki skráð til keppni þar vegna kostnaðar ferðalagsins. Einhverjar líkur eru á því að Anna muni hækka eitthvað til viðbótar á heimslista á þessu ári þegar að úrslit eldri alþjóðlegra stórmóta falla úr gildi.
Norðurlandameistaramót Ungmenna | Finnland – Kemi – 15-17 júlí 2022 |
European Outdoor Youth Championships | Bretland – Lilleshall – 14-21 ágúst 2022 |
Anna er íþróttamaður á hraðri uppleið sem er vel vert að fylgjast náið með í framtíðinni, sérstaklega í ljósi þess heimssambandið World Archery hefur lagt til að bæta við trissubogaflokki á Ólympíuleikana 2028 í Los Angeles.