ÆTLAR AÐ VERÐA BESTUR Á ÍSLANDI OG FINNA SITT PLÁSS Á STÓRA SVIÐINU

Óskar Jónasson hefur einungis stundað pílu í rúmt ár en engu að síður landað fjölda bikarar, hann er…
Óskar Jónasson hefur einungis stundað pílu í rúmt ár en engu að síður landað fjölda bikarar, hann er bæði núverandi Akureyrar- og Íslandsmeistari. Mynd MÞÞ

„Ég ætla einn daginn að verða bestur á Íslandi í pílu og finna mér mitt pláss á stóra sviðinu,“ segir Óskar Jónasson sem náð hefur góðum árangri í pílu. Hann hefur einungis æft og spilað í rúmt ár en engu að síður landað bæði Akureyrar- og Íslandsmeistaratitlum. Tekið þátt í tveimur mótum erlendis og stefnir á frekari þátttöku utan landssteina á næstu mánuðum gangi allt upp. Mikill áhugi er fyrir íþróttinni á Akureyri um þessar mundir, félagið það næst stærsta hér á landi með rúmlega 100 félaga. Aðstaðan er í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu og er hún sprungin. 

Óskar stundaði allar boltaíþróttir á sínum yngri árum, æfði flest sem hægt var að æfa á því sviði en fann sína fjöl svo í golfinu, fór að spila sem barn og náði ágætum árangri á því sviði. „Ég hafði mjög gaman af golfi og er enn að spila en bara mér til skemmtunar,“ segir hann. 

Óskar starfar hjá Kjarnafæði Norðlenska á Svalbarðseyri og einn daginn splæsti einn vinnufélaginn þar í píluspjald til að leika sér aðeins í matar- og kaffitímum á covid tímum þegar fyrirtækið var allt hólfað niður. „Mér þótti þetta skemmtilegt og hitti ágætlega sem varð til þess að áhuginn jókst. Einn vinnufélagi minn var í félaginu og hvatti mig til að mæta og það varð úr að ég ákvað að prófa eina æfingu hjá píludeildinni,“ segir hann. Þetta var í lok ársins 2021 og skráði hann sig í félagið fyrir rúmu ári, í febrúar 2022.  

Kom öllum á óvart 

Pílan lá vel fyrir honum, hann náði undraverðum árangri á skömmum tíma og sópaði að sér verðlaunum, tvö þau stærstu með tveggja vikna millibili í október á liðnu ári. Óskar varð Akureyrarmeistari í byrjun október og Íslandsmeistari fáum dögum síðar. „Það kom mér mikið á óvart ekki síður en þeim sem ég var að keppa við, ég held að enginn hafi átt von á að ég næði titlinum. Ég var að koma nýr inn og alveg óþekktur í þessum píluheimi, það vissi enginn hver þessi gaur var sem tók dolluna með sér heim,“ segir hann, en bikarinn fékk hann fyrir keppni í 301 einmenningi.  

Nú fyrr á árinu hefur Óskar tvívegis haldið á mót utan landsteina, fyrst í febrúar tók hann þátt í móti í Danmörku og í mars í Svíþjóð. Um er að ræða mót með þátttöku keppenda frá Norður- og Eystrasaltslöndum, PDC Nordic and Baltic. Slíkt mót verður haldið á Íslandi nú síðar í apríl og hyggst Óskar spreyta sig á því. Næstu mót verða síðan haldin í Finnlandi í júní og Litháen í júlí. „Ég náði nú ekki neitt sérstaklega góðum árangri á þessum mótum, þarna eru að keppa þrautreyndir menn í pílu og ég tapaði fyrir flestum. En engu að síður er það mjög gott fyrir mig að fá tækifæri á að spreyta mig á stórum mótum við góða píluspilara, það er allt inneign í minn reynslubanka sem ég bý að.“ 

 Háleit markmið um þátttöku á heimsmeistaramót 

 Óskar segir ekki sjálfgefið að hann geti sótt öll þau mót sem hann langi að sækja á næstunni, en hann á fjölskyldu, konu í fullu háskólanámi og tvö börn. „Ég veit auðvitað ekki hvað ég hef burði til að sækja af mótum erlendis, ég hef fullan hug á því og hef boðið einstaklingum og fyrirtækjum að styrkja mig í íþróttinni. Fram til þessa hafa það einkum verið ættingjar og vinir sem slegið hafa til en maður veit aldrei,“ segir hann vongóður enda markmiðin háleit, að komast á stóra sviðið og í hóp þeirra bestu. „Það er draumur að vinna sér rétt til að taka þátt í heimsmeistaramótinu, Ally Pally sem fram fer í Lundúnum í desember ár hvert, það væri alveg geggjað að ná því og ég stefni á það ljóst og leynt.“ 

 Óskari finnst gaman að spila pílu, þetta sé íþrótt sem nánast allir geti leikið og án mikils stofnkostnaðar. Boðið er upp á opna tíma á mánudags- og miðvikudagskvöldum í Laugargötunni frá 19 til 22 og hefur jafnan verið vel mætt. „Það hefur orðið algjör sprenging í pílunni, við erum með yfir 100 manns í félaginu, það næsta fjölmennasta á landinu og sífellt fleiri að prófa og taka þátt. Áhugi er líka mikill í nokkrum nágrannabyggðum sem gerir að verkum að við getum haldið mót hér norðan heiða sem er mjög gaman,“ segir hann en skuggahlið þessa mikla áhuga er að aðstaðan er við það að springa. Það komist vart mikið fleiri að svo vel sé.  Alls eru í salnum við Laugargötu 17 spjöld.  

Píludeild Þórs hefur ráðið þjálfara Mattías Örn Friðriksson í Grindavík. Tveir spilarar í deildinni, þeir Sigurður Fannar Stefánsson og Edgar Kede Kedza hafa einnig náð góðum árangri í íþróttinni og hafa náð sæti í úrvalsdeild í pílu sem fram fer á komandi hausti og verður í beinni útsendingu á Stöð2 sport. Framundan eru nú undankeppnir víða um land, en þegar hafa 14 af 32 spilurum tryggt sér sæti.

Nefnir Óskar að píla sé nú sýnilegri í sjónvarpi en var, hægt að fylgjast með mótum og æ fleiri kynnist íþróttinni þannig og langi að prófa í kjölfarið en einnig hafi eftir heimsfaraldur orðið vart við mjög vaxandi aðsókn, líkt og fólk hafi þeyst út úr húsi til að gera eitthvað eftir samkomutakmarkanir og inniveru. „Það er auðvitað bara gaman af því hversu vel gengur, bæði hjá mér og líka deildinni sjálfri, starfið þar er blómlegt og skemmtilegt,“ segir hann. 

Nýjast