68 athugasemdir vegna íbúðarsvæðis á Oddeyri

Oddeyrin. Mynd/Akureyri.is
Oddeyrin. Mynd/Akureyri.is

Alls bárust 68 athugasemdabréf frá almenningi og fimm umsagnir, frá hverfisnefnd Oddeyrar, Isavia, Minjastofnun, Norðurorku og Vegagerðinni vegna breytinga á aðalskipulagi á Oddeyri. Athugasemdir og umsagnir voru kynntar á síðasta fundi Skipulagsráðs Akureyrarbæjar.

Tillagan var kynnt 6. maí og rann athugasemdafrestur út þremur vikum seinna. Breytingin sem um ræðir nær til reits sem afmarkast af Hjalteyrargötu, Kaldbaksgötu, Gránufélagsgötu og Strandgötu og er hluti af stærra þróunarsvæði þar sem gert er ráð fyrir mikilli endurnýjun. Í tilllögunni felst að svæði, sem er að mestu skilgreint sem athafnasvæði, verði breytt í íbúðarsvæði og heimilt verði að byggja sex til átta hæða hús með verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæð, segir á vef Akureyrarbæjar.

Í byrjun október samþykkti bæjarstjórn á Akureyri tillögu um breytingu á aðalskipulagi fyrir Oddeyri vegna hugmynda frá verktakanum SS Byggi sem vildi byggja þar 6-11 hæða fjölbýlishús. Fyrirhugaðar byggingar hafa verið mjög umdeildar meðal bæjarbúa á Akureyri.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu málsins á síðasta fundi og var sviðsstjóra skipulagssviðs og formanni skipulagsráðs falið að funda með hagsmunaaðilum um framhald málsins.

Nýjast