Tungumálakennsla er sértæk kennsla
Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar
Margir faglegir leiðtogar skóla líta ekki á tungumálanám sem sértækt nám. Þeir búa ekki vel að tungumálakennslu í þeim skólum sem þeir fara fyrir. Samt skipta tungumál miklu máli á komandi árum fyrir nemendur.
Ákveðin skilyrði fyrir hendi
Til að nemendur læri tungumálið þurfa þau að heyra það. Þau þurfa að líka sjá orðin og því eru tungumálastofur nauðsynlegar. Slíkar stofur gerir tungumálakennaranum kleift að baða nemendur upp úr orðum sem þau vinna með hverju sinni. Námsumhverfið þarf að vera hvetjandi. Á Akureyri er víst lítið um að tungumálakennari, t.d. í dönsku hafi sérrými. Tungumálakennurum er gert að deila stofum með öðrum kennurum sem kenna ólík fög.
Mikilvægt er að kennari sem kennir tungumálið sé vel talandi á því og geti notað það í kennslu. Því miður er það ekki alltaf svo. Almennir kennarar sem hafa ekki einu sinni tekið t.d. dönsku sem sérgrein kenna oft tungumálið. Faglegir leiðtogar skóla ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ráða til sín tungumálakennara. Sérhæfða kennara.
Kennsluhættir
Eins og í öðru námi verða kennsluhættir að endurspegla getu og hæfni kennara í tungumálakennslunni. Kennari sem hefur góð tök á tungumálinu sem er kennt hefur betri forsendur til að endurspegla fjölbreyttari kennsluhætti í kennslustofunni en kennari sem hefur það ekki. Í upphafi tungumálanáms verður að höfða til leikja barna og áhuga þeirra fyrir að læra eitthvað nýtt.
Háskólinn á Akureyri
Hér á svæðinu eru margir kennarar sem fara í gegnum kennaranámið í Háskólanum á Akureyri. Í þeim skóla er ekki boðið upp á tungumálabraut. Þeir nemendur sem vilja sérhæfa sig í tungumálakennslu fara því oft suður fyrir heiðar til að fá þann undirbúning sem þarf til að kenna tungumál. Því miður eru of fáir nemendur sem velja þá leið að sérhæfa sig í tungumálanámi og því eru þeir sem það gera verðmætir fyrir grunnskólann.
Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. B.Ed með sérhæfingu í tungumálakennslu.