Gott, grænt og gult fótboltasumar í sumar
Það gladdi alla Norðlendinga þegar karlalið KA varð Bikarmeistari í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögu félagsins. KA var vel að þessum sigri komið, gleði og stolt þeirra einlægt. En við Þingeyingar, sem erum ekki þekktir fyrir mikla hógværð, viljum benda á staðreyndir sem tengjast þessu afreki.
Í öllum liðum skiptir, sköpum að það sé réttur maður á réttum stað. Þá er ekki verra að hafa nokkra lykilmenn, eða burðarása, sem eru uppaldir hjá því magnaða græna liði, Völsungi. Auk þess eru þjálfarinn og framkvæmdastjórinn nýkomnir úr Völsungstreyjunni. Grunar reyndar að þeir séu í henni undir þeirri gulu. Það er ljóst að KA menn eru naskir á að finna afbragðsleikmenn og félaga frá Húsavík svo með hógværð bendum við á að þetta var svona gul-grænn sigur.
Félagi minn úr KA hefur alltaf sagt við mig á stundu sem þessari, að gult og blátt sé í raun grænt þ.a. litafræðin bindur okkur eilíflega saman. Sameinaðir stöndum vér. En það er fleira sem gleður græna.
Karlalið Völsungs tryggði sér sæti í 1. deild karla á næsta ári. Þá hafa Völsungs stelpurnar átt góðan leik í sumar og voru hársbreidd frá því að ná í Lengudeildina, en þær munu ná því sæti að ári.
Tölfræði er skemmtileg og Leifur Grímsson, Völsungur hefur tekið saman, að unglingastarf Völsungs á Húsavík búi til langflestu fótboltamennina á Íslandi, miðað við okkar allra bestu höfðatölu. Þannig að fyrir hverja 10 Húsvíkinga sem verða fótboltamenn í þremur efstu deildum karla á Íslandi, eða atvinnumenn erlendis, þá koma 7,2 frá Grindavík, 6,8 frá Garðabæ, 4,9 frá Akureyri og aðeins 2 frá Reykjavík.
Ég tek þennan útreikning Leifs sem heilögum sannleik og þetta vita KA menn augljóslega.
Til hamingju allir, gulir, grænir og litblindir.