20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Danskur farkennari, stuðningur við dönskukennara
Dönskukennarar eiga því láni að fagna að danska ríkið styður við dönskukennslu á Íslandi. Það er gert með farkennara, dönskum kennara sem sem fer á milli skóla og aðstoðar við dönskukennsluna. Það koma tveir farkennarar til landsins og einn rektor sem starfar við dönskudeild HÍ, kennaradeild. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að þessum Dönum í tungumálanáminu við HÍ (áður KHÍ). Danska ríkið borgar laun þessara kennara sem stuðningur við tungumálanámið.
Danir styðja við fleiri lönd en Ísland t.d. Vilníus háskóla í Litháen. Í skólanum kenna þeir líka sænsku, finnsku og norsku. Íslenska hefur einstaka sinnum verið kennd þegar nægur fjöldi skráir sig. Einn framhaldsskóli í Vilníus kennir dönsku, sænsku og norsku en sá skóli leggur áherslu á tungumálanám.
Akureyri
Hér í bæ hafa nemendur grunnskólana heppnina með sér. Á Akureyri hefur á undanförnum árum komið farkennarar, oftast annað hvert ár. Einn kom á síðasta skólaári, annar í ár. Farkennari er ómetanlegt innlegg í dönskukennsluna en höfundur nefndi í fyrri grein að danskan á undir högg að sækja.
Farkennarinn er að meðaltali 6 vikur í hverjum skóla. Í samvinnu við dönskukennara í hverjum skóla eru áherslurnar ákveðnar út frá námsefninu. Oft er lögð áhersla á munnlega þáttinn, sér í lagi ef dönskukennarinn á sjálfur í basli með framburð dönskunnar, eða þekkir hann ekki. Farkennarinn talar ekki íslensku svo hlustun verður óhjákvæmilega virkasti þátturinn hjá nemendum. Undir engum kringumstæðum á að grípa til enskunnar. Að sjálfsögðu túlkar íslenski kennarinn fyrir nemendur sína ef þau lenda í vandræðum, sérstaklega fyrir þau yngri. Til þess að það verði þarf hann að hafa dönsku á sínu valdi.
Í lokin er skýrslu skilið
Glöggt er gests augað segir máltækið. Oft kemur farkennarinn auga á eitthvað sem aðrir sjá ekki. Kannski eru þeir sem fyrir eru samdauna því sem er í gangi eða vita ekki eftir hverju skal leitað. Alltaf gott að fá góðar ábendingar.
Farkennarinn skilar af sér skýrslu til yfirvalda þegar dvöl hans lýkur, að sjálfsögðu á dönsku. Oft kemur fram í skýrslunni hvað sé gott í kennslunni og hvað má betur fara. Hann kemur líka inn á hvernig búið er að dönskukennslunni í þeim skólum sem hann starfaði.
Hvort ráðamenn menntamála hér í bæ taki mark á því sem fram kemur í skýrslunni skal ósagt látið. Líta má á skýrsluna sem ákveðna úttekt á dönskukennslu í skólum bæjarins.
Tungumálakennari er gulls ígildi. Faglegir leiðtogar skóla átta sig kannski ekki á hvers konar starfskraft þeir eru með á sínum snærum. Eitt er víst, þeim fer fækkandi sem taka tungumál sem sérgrein í kennaramenntun sinni. Eftir að kröfur um kennaramenntunina breyttist versnar ástandið bara.
Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. og B.Ed tungumálakennari.