Danskan á undir högg að sækja

Helga Dögg Sverrisdóttir
Helga Dögg Sverrisdóttir

 

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Kennsla í dönsku á Akureyri á undir högg að sækja. Ekki af því nemendur sé ófúsir við að læra hana heldur er námsumhverfið ekki hvetjandi í öllum skólum. Tungumálakennarar hanga ekki á hverju strái og því ættu faglegir leiðtogar skólanna að nota ráð undir rifi hverju til að fá slíka kennara til liðs við sig.

Hvenær á að byrja

Því fyrr sem nemendur kynnast dönsku því betra. Í sumum skólum á Akureyri byrja nemendur í dönsku í 6. bekk en öðrum 7. bekk. Það hefur verið samdóma áliti dönskukennarana að 6. bekkur sé góður aldur til að byrja  dönskukennslu.

Þegar greinarhöfundur gerði könnun á högum drengja í 7. bekk fyrir nokkrum árum vakti það athygli að drengjunum fannst danska skemmtilegri en íslenska þegar þeir voru spurðir hvaða fög þeim þætti skemmtilegust í skólanum. Gladdi dönskukennarahjartað. Þá höfðu margir þeirra kynnst dönsku í 6. bekk.

Málhljóðin

Þegar einstaklingur lærir nýtt tungumál þarf hann að læra ný málhljóð því þau eru ekki eins í öllum tungumálum. Hljóðin myndast með hjálp ýmissa líffæra eins og  lungum, barkakýli og raddböndum. Misjafnt er hvernig hljóð eru borin fram í tungumálum og ef nemandi þekkir þann mun sem greinir á milli móðurmálsins og dönskunnar getur það auðveldað dönskukennsluna. Til að það megi verða þurfa tungumálakennara að hafa þekkinguna.

Hvað er öðruvísi í framburði

Mikilvægt er í tungumálanámi að kenna réttan framburð orða. Til að kennari geti kennt þann hluta tungumálanámsins þarf hann sjálfur að hafa þá þekkingu. Áhersla í íslensku kemur á fyrsta atkvæði sem er frábrugðið dönskunni. Stafsetningin hefur líka áhrif svo og merking orða sem stafsett eru eins en þýða sitt hvað.

Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. og B.Ed. með sérhæfingu í tungumálakennslu.

Nýjast