Jólavæntingar
Við eigum flest mynd af fullkomnum jólum í hugskoti okkar. Myndir sem ef til vill eiga uppruna sinn í bernskujólunum sem oft eru sveipuð töfrum í huganum, og því meira eftir því sem við eldumst. Og ef ekki þar, þá í flestum jólamyndum, jólabókum, jólasöngvum og jólaauglýsingum sem reka á fjörur okkar. Við sjáum fyrir okkur dásamlegar stundir með fjölskyldu og vinum í kringum stórt borð í stofunni á fallega skreyttu heimili og gjarnan með arineld í bakgrunni. Úti snjóar að sjálfsögðu því jólin þurfa að vera hvít. Á smekklega skreyttu borðinu er jólamatur, allt ljúffengt og vel útilátið. Allir eru klæddir í sitt besta skart og njóta matarins. Eftir máltíðina safnast allir saman við fullkomið jólatré og skiptast á yndislegum gjöfum og skemmtilegum samræðum.