Framsýn Stéttarfélag - Stjórnvöld, vegagerðin og fjárveitingavaldið hysji upp um sig buxurnar
„Á sama tíma og ákveðnir þingmenn Norðausturkjördæmis tala fyrir styttingu þjóðvegarins frá Akureyri til Reykjavíkur, fer lítið fyrir áhuga þeirra á að tryggja eðlilegar samgöngur austan Vaðlaheiðar til Akureyrar. Nú er svo komið að brúin yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn, sem verið hefur aðal samgönguæðin til Húsavíkur, Kópaskers, Raufarhafnar, Þórshafnar og nærsveita, þolir ekki frekari þungaumferð og hefur henni verið lokað fyrir umferð stærri ökutækja. Þess í stað hefur þungaflutningum verið beint á einbreiða brú á þjóðvegi 1. við Fosshól, sem einnig er löngu hætt að svara kröfum tímans. Umferð þar um er þung og myndast ítrekað langar raðir ökutækja beggja vegna brúarinnar með tilheyrandi slysahættu fyrir vegfarendur. Það bætir ekki úr skák að brúin við Ófeigsstaði hefur að mestu verið lokuð undanfarið fyrir almennri umferð, þar sem nú standa yfir á henni bráðabirgðaviðgerðir.