„Við byrjuðum í bílskúrsfíling“
Á dögunum opnaði ný og glæsileg CrossFit aðstaða á Húsavík. Blaðamaður Skarps leit við á æfingu og tók Ástu Hermannsdóttur CrossFit Þjálfara tali og fræddist um þetta skemmtilega sport.
CrossFit hefur átt vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi. Anný Mist Þórisdóttir er nafn sem flestir Íslendingar þekkja í dag en hún hefur tvisvar sinnum unnið alþjóðlegu CrossFit leikana, árin 2011 og 2012. Leikarnir eru ígildi heimsmeistaramóts í greininni. Nú hefur þessi skemmtilega íþrótt skotið rótum á Húsavík en á dögunum opnaði CrossFit aðstaða að Vallholtsvegi 8, á efri hæð í húsnæði Húsasmiðjunnar. Þar opnaði jafnframt Töff líkamsrækt í nýju húsnæði og er aðstaða öll hin glæsilegasta.
Á þriðjudag hófst fyrsta grunnnámskeiðið í CrossFit á Húsavík, Skarpur leit við áður en kennnsla hófst og ræddi Ástu Hermannsdóttur en hún er leiðbeinandi á námskeiðinu. Ásta hefur stundað sportið af miklu kappi síðan árið 2011. Það má segja að þetta sé orðið fjölskyldu-sport, því kærasti Ástu, Hörður Ingi Helenuson fékk bakteríuna frá henni eins hún komst sjálf að orði. „Það tók mig reyndar tvö ár að fá kærastann minn með mér í þetta og nú er ekki aftur snúið. Annað hvort fílarðu CrossFit eða ekki og ef þú fílar það; þá ertu bara heima á youtube á kvöldin að skoða myndbönd, þetta er bara svoleiðis. Þetta er baktería sem maður fær og verður lífstíll,“ segir Ásta.
Lengri útgáfu af viðtalinu má nálgast í prentútgáfu Skarps.
- Skarpur, 6. apríl 2017