20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Þriðja bókin í erótískri seríu
Akureyringurinn Sandra Clausen gefur út sína þriðju bók fyrir jólin. Bókin nefnist Ferðin og er þriðja bókin í seríunni Hjartablóð. Ferðin er sjálfstætt framhald Flóttans sem kom út í fyrra. Í nýju bókinni fylgjumst við enn með fjölskyldunni í Smálöndum og þá sérstaklega Magdalenu Ingvarsdóttir, aðalsögupersónu bókanna.
Í þetta sinn er ferðinni heitið að fyrri heimkynnum hennar eftir langa dvöl á Íslandi. Sögusvið er 17. öldin og fléttar Sandra saman bæði sögulegum staðreyndum og hreinum skáldskap.
„Því geymir bókin bæði áhugaverða fróðleiksmola tengda samfélagi og trúmálum,“ segir Sandra. Hjartablóð er erótísk bókasería og segir Sandra þá þriðju ekki gefa hinum tveimur neitt eftir í þeim efnum. „Lesandinn kynnist persónum betur í Ferðinni sem er ívið lengri í samanburði við hinar tvær. Við köfum dýpra í fyrri atburðarrás og ýmis leyndarmál líta dagsins ljós. Forboðnar ástir og fölsk loforð eru útkljáð en litríkar persónur passa uppá að halda uppi vissum léttleika í sögunni,“ segir Sandra.
Hún segir bækurnar hafa verið umtalaðar fyrir fallegar kápur en það er Kontor auglýsingastofa sem sér um hönnunina. „Eins og áður prýðir Magda forsíðuna en ber nú höfuðið hátt þrátt fyrir þau hrakföll sem hún hefur orðið fyrir.“
Spurð hvort framhaldið verði lengra á seríunni segist Sandra halda áfram að skrifa svo lengi sem fólk les eða hlustar. Ferðin kemur út sem hljóðbók fyrir jólin hjá Storytel og seinna í búðir. Hjartablóð hefur fengið mikið lof á hljóðbókarmarkaðnum og hinar tvær, Fjötrar og Flóttinn, sátu á metsölulista síðasta sumar.