Rokkið ráðandi á Græna hattinum

Dimma verður á Græna hattinum um helgina.
Dimma verður á Græna hattinum um helgina.

GG blús er blúsaður rokkdúett frá Álftanesi, mannaður reynsluboltum úr bransanum og heldur sveitin tónleika á Græna hattinum í kvöld, fimmtudag kl. 21:00. Guðmundur Jónsson (Sálin, Nykur, Trúboðarnir) sér um gítar og söng og Guðmundur Gunnlaugsson (Kentár, Sixties, Jötunuxar) um trommur og söng. Tvímenningarnir hafa undanfarin misseri spilað kraftmikla tónlist sína ásamt sígrænum ábreiður og gáfu út í fyrra sína fyrstu plötu, Punch, við prýðilegar undirtektir.

Á föstudagskvöldinu verður „grunge“ rokkið allsráðandi þar sem tónlist hljómsveitanna Pearl Jam og Nirvana verða spiluð á einni og sömu rokkmessunni. Pearl Jam skipa þeir Magni Ásgeirsson söngur, Franz Gunnarsson gítar og söngur, Haraldur Sveinbjörnsson gítar og hljómborð, Birgir Kárason bassi og söngur og Kristinn Snær Agnarsson trommur. Nirvana skipa þeir Einar Vilberg söngur og gítar, Franz Gunnarsson gítar og söngur, Jón Svanur Sveinsson bassi og söngur og Kristinn Snær Agnarsson trommur. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00.

Á laugardaginn er komið að hljómsveitinni Dimmu. Fjölskyldutónleikar verða á degi til kl. 16.00 en tónleikarnir um kvöldið hefjast kl. 21:00. Dimmu þarf vart að kynna enda ein vinsælasta rokksveit landsins undanfarin ár. Sveitina skipa Stefán Jakobsson söngur, Ingó Geirdal gítar, Silli Geirdal bassa og Egill Örn Rafnsson trommur.

 

Nýjast