Opna dyrnar í Eyjafjarðarsveit
Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar stendur fyrir opnum dyrum í sveitinni á laugardaginn kemur þann 7. desember. Þar munu fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á gjafabréf til sölu í jólapakkana og vera með skemmtilegar uppákomur.
María Pálsdóttir, eigandi og rekandi Hælisins í Kristnesi, er ein af þeim sem ætlar að opna dyrnar upp á gátt á laugardaginn.
„Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar er vetttvangur fyrir alla sem sinna ferðaþjónustu í sveitinni og það er mikill hugur í fólki. Okkur langaði að minna á okkur og kynna fjölbreytileikann og fá fólk til að kaupa upplifun í jólapakkann. Alveg tilvalið að hvetja fólk til að fara í bíltúr í sveitina og koma við á sem flestum stöðum,“ segir María.
Þau fyrirtæki sem verða með opið hús eru Iceland Yurt, Ásar Guesthouse, Jóga á Jódísarstöðum, Kaffi Kú, Kyrrðarhofið, Brúnalaug Guesthouse, Brúnir/Brunirehorse, Sigga Sólarljós, Smámunasafnið, Holtsel, Dyngjan-Listhús, Lupus Luna, Íslandsbærinn, Geira Gunn Gunn, Jólagarðurinn og Hælið. María segir að vel hafi gengið að fá fólk og fyrirtæki til að taka þátt í opna deginum. Hún segir fjölbreytileikann sýna hversu mikið Eyjafjarðarsveit hefur upp á að bjóða.
„Söfn, sýningar, gistimöguleikar, markaðir, vinnustofur, jóga, kyrrðarhof, jólagarður, hönnun og handverk og bara nefndu það. Og allir ætla að vera með eitthvað spes hjá sér á laugardaginn. Eins og tilboð á gjafabréfum, lifandi tónlist, frían aðgang, smakk á framleiðslu, tónheilun, slökun og áfram mætti telja.“
María segir að stefnan sé að gera þetta að árlegum viðburði hið minnsta, jafnvel tvisvar á ári og þá einnig á vorin. Hún stendur að vanda vaktina á Hælinu og þar verður frítt inn á sýninguna um sögu berklana og harmonikkuleikari heldur uppi stemmningunni. „Ég hvet alla til að koma inn í fjörð og þræða sem flesta staði á laugardaginn,“ segir María Pálsdóttir.