Nýr flokksforingi Hjálpræðishersins á Akureyri

Sigríður Elín Kjaran.
Sigríður Elín Kjaran.

Sigríður Elín Kjaran, eða Elín eins og hún er yfirleitt kölluð, tók við starfi flokksforingja Hjálpræðishersins á Akureyri þann 1. ágúst sl. Hún tók við af hjónunum Hannesi Bjarnasyni og Birnu Dís Vilbertsdóttur sem gegnt höfðu starfi flokksforingja frá haustinu 2013.

Hannes og Birna hafa nú hafið störf sem flokksforingjar í Hjálpræðishernum í Reykjavík, ásamt þeim Hjördísi Kristinsdóttur og Ingva Kristni Skjaldarsyni sem hafa starfað þar síðustu ár.  Ásamt Elínu starfar Herdís Helgadóttir í hlutastarfi hjá Hjálpræðishernum á Akureyri. Starfið er nú að komast í gang eftir sumarfrí og öðruvísi vetur. Áætlað er að allt starf verið komið af stað fyrir miðjan september en stóran hluta ársins 2020 hefur kirkjustarfið aðallega farið fram á samfélagsmiðlum þótt velferðarstarf og mataraðstoð hafi haldist óbreytt í samkomubanninu.

Meðal þess starfs sem Hjálpræðisherinn býður upp á er opið hús fyrir börn á grunnskólaaldri og fjölskyldur þeirra, þar sem markmiðið er að fjölskyldan geti átt gæðastund saman og boðið er upp á heitan mat. Einnig eru samkomur alla sunnudaga, hádegissamverur á miðvikudögum, unglingastarf, prjónahópur og heimilasamband sem hefur verið mjög fjölmennt í mörg ár. 

 

Nýjast