20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Jólin eins og lítið undirbúningstímabil fyrir okkur handboltafólkið“
Hulda Bryndís Tryggvadóttir er 25 ára uppalin á Akureyri. Hún hefur æft handbolta frá unga aldri og spilar í dag með liði KA/Þórs en þær náðu þeim magnaða árangri að vinna alla þrjá titlana sem eru í boði, þ.e. Íslands-, bikar- og deildarmeistara á síðasta tímabili.
Frí á aðfangadag, jóladag og nýársdag
Hulda fer yfir hvernig jólin hjá þeim eru sett upp æfingalega og segir í raun að þær fái 2-3 daga í frí yfir alla hátíðina og telur mjög líklegt að engin af þeim taki sér í raun eitthvert frí. „Rétt eins og yfir allt tímabilið þá hugsar maður vel um sig yfir hátíðirnar, það verður æft að krafti og bætt í á þessum tíma. Ég hef trú á því að hlaupum verði bætt við inn á handboltaæfingum og að lyftingaræfingarnar verði fleiri en á tímabilinu sjálfu. Það er hægt að horfa á þennan tíma sem lítið undirbúningstímabil fyrir okkur handboltafólkið. Sem er gott þar sem maður hefur gott að því að svitna öllu þessu sukki sem maður er að láta ofan í sig um jólin. Í fyrra fengum við frí á aðfangadag, jóladag og fyrsta dag á nýju ári svo ætli það verði ekki eitthvað svipað þessi jólin. En ég tel mig nú farin þekkja stelpurnar ágætlega og hef litla trú á því að leikmenn taki sér í raun eitthvert frí, því hvað er betra en æfing á aðfangadagsmorgun?“ spyr Hulda.
Bæta inn hlaupum og viðhalda styrk
Hulda segir að yfir hátíðirnar bætist inn hlaup á æfingum og tempóið verði hærra en einnig fari þær eflaust yfir nokkra hluti sem þurfi að æfa betur. „Trúlega verða handboltaæfingarnar á örlítið hærra tempói, þar sem hlaupum verður bætt inn. V erum með skipulagða þjálfara sem vilja eflaust fara yfir ýmsa hluti, því við eigum okkar fyrsta leik í deildinni eftir jólafrí 8. janúar.”
Aðspurð hvort öðruvísi áherslur séu lagðar á lyftingar yfir hátíðirnar segir hún að leikmenn reyni að gera sitt besta til að viðhalda styrk sínum. „Ég tel að leikmenn reyni að viðhalda styrk sínum og bæta kannski inn einhverjum þyngri lyftingaræfingum en vaninn er. En svo erum við með góðan styrktarþjálfara sem á eftir að hugsa vel um okkur og töfra fram gott plan í desember.“
Gott jólafrí með fjölskyldu og vinum
Stelpurnar í hópnum eiga ekki allar sína fjölskyldu á Akureyri en þær fá að fara til fjölskyldu sinnar yfir hátíðarnar og njóta þeirra þar. Hulda segir að það séu aðeins örfáar sem fari og því nái hinar í liðinu að æfa nokkuð vel saman. „Það hefur verið þannig að þær sem eru að sunnan eða annars staðar að, fá gott jólafrí með fjölskyldu og vinum – en þær eru nú líklega bara 2-3 – þannig að liðið helst næstum allt saman um hátíðirnar og nær að æfa vel.“
Skemmtileg hefð að halda áramótaæfingu
Aðspurð hvort þær myndu gera eitthvað auka félagslegt yfir hátíðirnar talar hún um að á veturna séu þær duglegar að gera eitthvað saman en um hátíðirnar sé fólk meira að njóta með fjölskyldunni. „ Það hefur samt alltaf verið skemmtileg hefð hér á áramótunum að hafa góða áramótaæfingu. Leikmenn og þjálfarar mæta í búningi og spila íþróttir sem eru ekki tengdar handbolta á neinn hátt.“
Móralinn góður og sterkur vinskapur
Hulda segir að móralinn í liðinu sé virkilega góður og þær séu allar orðnar mjög góðar vinkonur. ,,Mórallinn er virkilega góður, allt dásamlegir karakterar innan liðsins og allar orðnar svo góðar vinkonur. Góð blanda af heimastúlkum sem hafa alist upp í KA-heimilinu og svo höfum við verið mjög heppnar með stelpur sem koma að sunnan eða utan. Einnig er þetta góð blanda af eldri og reyndari leikmönnum og svo yngri stelpum sem eru búnar að stíga virkilega vel upp síðustu ár. Eins og gefur að skilja höfum við eytt miklum tíma saman seinasta árið, tímabilið kláraðist seinna en áætlað var útaf aðstæðunum í heiminum. Því fengum við lítið sumarfrí sem betur fer því maður var farin að sakna þeirra strax!“
Ferðalög oft misjöfn
Hulda var spurð hvort liðið ferðist alltaf saman.. “Ég myndi segja oftast já, en þegar leikir eru á virkum dögum kemur það fyrir að einhverjir leikmenn eða starfsfólkið í kringum liðið fljúgi ef þess er þörf. Þá er það oftast vegna vinnu, fundar eða því um líkt. Einnig kemur það fyrir að leikmenn keyri sjálfir degi á undan og þá tala ég m.a. fyrir mig, því ég á foreldra á höfuðborgarsvæðinu og finnst voða gott að koma í þeirra hús,” segir Hulda.
Leikgleði og samheldni
Liðið náði einstökum árangri á síðasta tímabili segir Hulda það vera samspil margra þátta sem hafi komið þeim áfram og náð þessum árangri. “Þegar ég hugsa til baka, tel ég það vera samspil margra þátta, því mikil leikgleði og samheldni einkenndi liðið okkar. Það lögðu allir mikið á sig til að vera tilbúnar fyrir tímabilið og vildu gera vel. Tilkoma Rutar Jónsdóttur ýtti við leikmönnum sem lögðu harðar að sér og voru tilbúnir í nýja hluti. Það ríkti mikil jákvæðni innan hópsins og áherslan á að njóta þess að spila handbolta var áberandi.“
Hún segir að þegar á leið hafi þær þurft að hugsa markmiðin upp á nýtt, sem þær settu sér fyrir tímabilið. „Við vorum að koma öllum á óvart og meðal annars okkur sjálfum. Við vorum vel skipulagðar allt tímabilið og vorum við með gott teymi í kringum okkur sem auðveldaði okkur að einbeita okkur einungis að því að spila handbolta.“
ÁBJ