Gilið að fyllast af snjó
Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme fer fram á Akureyri um helgina, dagana 6.-9. apríl í Gilinu og í Hlíðarfjalli. Mikill undirbúningur hefur staðið yfir alla vikuna vegna hátíðarinnar og er nú Gilið að fyllast af snjó.
Hilmar Þór Sigurjónsson, framkvæmdastjóri AK-Extreme, segir hlýindin og snjóleysið gera aðstandendum erfiðara um vik og flytja þurfi mikið magn af snjó í bæinn.
„Það eru fjölmargir vörubílar sem við notum til að ferja snjó úr Hlíðarfjalli og hingað í Gilið. Það eru um 2000 rúmmetrar af snjó sem við þurfum,“ segir Hilmar en hann segist muna eftir einu skipti þar sem allt var autt á götum, líkt og í dag. „Sem betur fer höfum við ekki oft lent í þessu en svona aðstæður gera hlutina miklu erfiðari en ella. Kostnaðurinn sem fer í að flytja snjóinn er ansi drjúgur. Þessi litli snjór sem er í bænum er mjög skítugur og verður notaður sem grunnur en við þurfum við hreinni snjó sem yfirlag. Það er rosalega vinna sem fer í þetta og ég held að fáir átti sig á allri þeirri vinnu sem liggur að baki hátíðinni. Allir sjálfboðaliðarnir og fyrirtæki sem aðstoða okkur í þessu eru geggjuð fyrir okkur,“ segir Hilmar.
Frekar köld spá er frá og með laugardeginum og tekur Hilmar því fagnandi. „Við vorum að reisa gámana í 10 stiga hita í vikunni. Það var frekar súrrealískt að vera undirbúa snjóbrettamót og sjá grasið grænka fyrir framan mann. En það er aðeins að kólna og fór að snjóa á okkur um daginn. Þannig að þetta er orðið aðeins raunverulegra núna.“
Hann segir hátíðina verða stærri með hverju árinu en stærsti viðburðurinn er Eimskips-gámastökkið á laugardagskvöldið. Þar verða m.a. fjórir erlendir keppendur og alþjóðlegur dómari. „Hann setur vissan gæðastimpil á hátíðina og er helsta breytingin á milli ára. Það verður mjög spennandi að hafa hann innanborðs.“
Von er á mörgum gestum í Gilið á laugardagskvöldið þegar Eimskips-gámastökkið fer fram en í fyrra var metfjöldi á svæðinu. „Það var æðislegt að sjá allt fólkið í fyrra en ég hélt að það kæmist ekki svona margt fólk fyrir í Gilinu. Bæjarbúar hafa mikinn áhuga á þessu og virkilega gaman að sjá hversu margir mæta á svæðið og fylgjast með,“ segir Hilmar, en keppnin á laugardagskvöld verður í beinni útsendingu í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.
Dagskrá AK-Extreme er sem hér segir:
Fimmtudagur: Pallaparkið opið í Hlíðarfjalli. 19.00 King/Queen of the hill með grillpartý í Hlíðarfjalli.
Föstudagur: Pallaparkið opið í Hlíðarfjalli. 21.00 Burn Jib Session í Gilinu á Akureyri (sama stað og gámastökkið).
Laugardagur: Pallaparkið opið í Hlíðarfjalli. Kl. 21.00 EIMSKIPS-gámastökk í Gilinu á Akureyri. Bein útsending í opinni dagskrá á STÖÐ 2 SPORT.
Sunnudagur: Pallaparkið opið í Hlíðarfjalli. Kl. 13.00 FIMAK-AKX PARKOUR. Keppnin fer fram í íþróttamiðstöðinni við Giljaskóla (fimleikahúsið) og verður húsið opnað kl. 12.00.