Endurbótum á geðdeild SAk lokið
Miklar endurbætur hafa verið gerðar á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og marka þær stórt skerf í átt að bættri þjónustu og umönnun skjólstæðinga sjúkrahússins. Opið hús var á endurbættri geðdeild þar sem samstarfsfólki og gestum gafst færi á að skoða nýja aðstöðu deildarinnar. Hafist var handa við breytingar í byrjun ágúst og er framkvæmdum nú lokið, 10 vikum síðar.
„Við erum mjög ánægð með þessar breytingar sem voru orðnar tímabærar. Aðstaða starfsfólks var ófullnægjandi og takmarkað aðgengi var að skráningum og almennri skipulagsvinnu á vakt. Breyting á vaktrými gefur þá einnig betri yfirsýn yfir deildina í heild. Þá var einnig þörf á endurbótum á sjúklingarýmum, gólfefnum, loftklæðningum og lýsingu ásamt því að mála veggi deildarinnar. Þörfinni fyrir einbýli, fjölgun rýma og aðgengi að útsvæði mætum við þó ekki fyrr en í nýbyggingu geðdeildar á næstu árum en endurbætur á núverandi húsnæði eru að koma afar vel út,“ segja þau Bernard Gerritsma, deildarstjóri og Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri í frétt á vef SAk.
Þótt legurýmum hafi ekki fjölgað, er aðstaðan öll betri og sérstaklega var hugað að bættri vinnuaðstöðu starfsfólks.
Stefnt er að því að taka á næsta ári fyrstu skóflustungu að viðbyggingu við SAk þar sem öll þjónusta geðdeildarinnar verður á einu svæði.
Valborg Lúðvíksdóttir aðstoðardeildarstjóri og Bernard Gerritsma, deildarstjóri