20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Bjart er yfir Betlehem
Vel var tekið á móti blaðamanni Skarps á dögunum þegar hann leit við í húsnæði Félags eldri borgara á Húsavík og nágrennis að Garðarsbraut 44 þar sem áður var til húsa húsgagnaverslunin Hlynur Sf. Félagið festi kaup á húsnæðinu fyrir rétt um ári síðan og hafa lyft grettistaki við að endurnýja húsakynnin, en í húsinu mun félgsaðstaða félagsins verða um ókomin ár.
Hellt var upp á dýrindis kaffi og mér boðið til sætis með fríðum hópi eldri borgara sem fræddu mig um allt sem ég vildi vita um framkvæmdirnar. Húsnæðið er óðum að taka á sig mynd. Búið er að parkettleggja, flísaleggja og mála svo fátt eitt sé nefnt. Til stendur að taka húsnæðið í notkun innan skamms en búið er að lofa salnum undir fermingarveislu um páskahátiðina. Það eru áform uppi um það að leigja salinn út til slíkra veisluhalda í framtíðinni til að fjármagna rekstur hússins en húsið verður búið fullkomnu eldhúsi með iðnaðaruppþvottavél.
Til að fjármagna kaupin á húsinu og framkvæmdirnar hefur frjálsum framlögum verið safnað meðal félagsmanna með mjög góðum árangri. Einnig hefur fólk sem ekki hefur náð lágmarksaldri til að ganga í félagið sem er 60 ár sýnt framtakinu áhuga. Þá hafa fyrirtæki á svæðinu verið rausnarleg og stykt félagið með fjárframlögum og byggingarefnum.
Ekki hefur húsið fengið nafn en margar hugmyndir komið fram. Ein þeirra hugmynda er að húsið fái nafnið Betlehem en það var meira sagt í gríni vegna þess hve dulglegir félagsmenn hafa verið að safna styrkjum vegna endurbótanna. En að öllu gríni slepptu fannst viðmælendum líklegt að húsið fengi nafnið Hlynur.
Nánar var fjallað um málið í prentútgáfu Skarps
- Skarpur, 6. apríl 2017