20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Yfirnæringafræðingur á SAk í húsnæðisleit
Sarah Hewko er nýráðinn yfirnæringafræðingur við Sjúkrahúsið á Akureyri. Sarah er frá Kanada, fædd í Yellowknife, Northwest Territories, en hefur einnig búið í Charlottetown, Prince Edward Island, sem er þekktust fyrir að vera heimabær Önnu í Grænuhlíð.
Eftir fyrstu heimsókn Söruh til Íslands fyrir tíu árum hefur hún leitað leiða til að flytja til landsins. Tækifærið bauðst þegar hún réð sig sem yfirnæringarfræðing við SAk. „Það er erfitt að draga saman ástæður mínar fyrir að vilja flytja til Íslands en þær hafa þó mikið með velferðarkerfið að gera. Mér finnst sárt að fylgjast með þeim breytingunum sem hafa átt sér stað í Kanada þar sem bilið milli þeirra ríkustu og fátækustu hefur aukist og grunnþörfum fólks s.s. húsnæði, heilsugæslu og menntun er ekki verið mætt,“ segir Sarah.
Næringarfræðingar gegna lykilhlutverki
„Klínískir næringarfræðingar vinna mjög mikilvægt starf á sjúkrahúsum. Rannsóknir sýna að góð næring er mjög mikilvægur þáttur í bata sjúklinga við alvarleg veikindi og eftir aðgerðir.
Margir sjúklingar eru því mjög háðir því að hugsað sé vel um þessa þætti. Því er ekki að furða að nánast allar stéttir koma að þessum málum. Hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraliðar, kokkar og eldhússtarfsfólk. Næringarfræðingar gegna lykilhlutverki með sína þekkingu. Það er því gífurlega mikilvægt ef á að sinna þessu vel, að sjúkrahús eins og okkar hafi góða og vel menntaða klíníska næringarfræðinga. Í mörg ár erum við búinn að reyna að byggja upp næringar teymi sem sinnir þessu, vakir yfir og fræðir. Næringarfræðingur hefur verið í forystu í þeirri vinnu. Síðustu ár höfum við verið með hjálp að sunnan til að bjarga okkur. Skortur er á þessari þekkingu á Íslandi en mikil eftirspurn er eftir þekkingunni og kunnáttu í sambandi við umönnun og meðferð næringarþarfa sjúklinga á öllum sviðum. Að fá einhvern með reynslu og þekkingu Söruh er frábært og mun styrkja okkur mjög í allri vinnu í næringarmálum á SAk,“ segir Guðjón Kristjánsson, yfirlæknir lyflækningadeildar.
Erfitt að finna húsnæði sem hentar
Stærsta áskorun Sarah við flutninginn til Íslands er að finna hentugt húsnæði í Akureyri fyrir börnin sín og hundinn. Hún segir að það sé flókið ferli að flytja hund til Íslands og hún geti ekki byrjað ferlið fyrr en hún hefur fundið heimili fyrir fjölskylduna. „Mig bráðvantar húsnæði með tveimur svefnherbergjum í góðu samgöngufæri við sjúkrahúsið. Einnig þarf að vera leyfilegt að vera með hund,“ segir Sarah sem sér einnig fyrir sér að geta aðstoðað leigusala eða nágranna með matarinnkaup eða snjómokstur.
Fræðimaður og rannsakandi
Sarah hefur mikinn áhuga á að lesa bæði skáldskap og fræðirit. Hún hlustar reglulega á hlaðvörp, flest með sterkum feminískum undirtón. „Ég vinn líka sem fræðimaður á sviði mannauðsheilsu og ver miklum tíma í að fylgjast með rannsóknum og fréttum á því sviði. Ég vonast til að fá tíma til að skrifa í sumar enda á ég eftir að birta niðurstöður úr rannsóknum mínum,“ segir Sarah.
Sarah segist hrifin af landslaginu á Akureyri og segir fjallasýnina vel geta keppt við dýrustu skíðabæi eins og Whistler í Bresku Kólumbíu og Aspen í Colorado. Hún hefði þó viljað sjá betri strætisvagnaþjónustu, sérstaklega um helgar og á hátíðum. „Sem Kanadabúi tel ég mig vera vel undirbúna fyrir íslenska veturinn. Það verður hinsvegar áskorun að eiga við dimma og stutta daga en ég er að spá í að kaupa mér ljósalampa til að brúa bilið.“
Lærir íslensku og mælir með því að flytja til Akureyrar
Þó að Sarah hafi aldrei starfað utan Kanada áður, þá er Kanada mjög stórt land og hún hefur starfað í fjórum af tíu fylkjum landsins. „Helsta markmið mitt í starfi er að veita gagnreynda, sjúklingamiðaða umönnun til skjólstæðinga sjúkrahússins. Til að ná þessu markmiði ætla ég að byggja upp sterk sambönd við samstarfsfólkið mitt, þó sér í lagi við þverfaglega heilsuteymið.“
Söruh var vel tekið af samstarfsfólkinu á SAk og æfir sig í íslensku á hverjum degi. Hún hefur verið að læra íslensku síðan 2020 og langar að gefa vel í í þeim efnum um leið og hún hefur komið sér betur fyrir.
„Ég mæli sannarlega með því fyrir heilbrigðisstarfsfólk að íhuga að flytja til Akureyrar til að starfa við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hér eru lífsgæðin góð og gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Auðvitað er það alltaf áskorun að flytja á milli landa, sérstaklega ef flutt er með fjölskyldu eða gæludýr.“
Sjúkahúsið á Akureyri tekur við öllum ábendingum um húsnæði fyrir Söruh og hundinn hennar. Allar ábendingar berist á bokun@sak.is.
Frá þessu segir á sak.is