Tímamót í vegferð að eflingu sjúkrahússins

Skrifað undir samninginn sem er á milli Nýs Landspítala (NLSH ohf) og hönnunarhóps sem samanstendur …
Skrifað undir samninginn sem er á milli Nýs Landspítala (NLSH ohf) og hönnunarhóps sem samanstendur af Verkís hf, TBL arkitektum, JCA Ltd. og Brekke & Strand. Frá vinstri eru Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, Ivon Stefán Cilia arkitekt og framkvæmdastjóri TBL. Hrafnhildur Ólafsdóttir arkitekt og framkvæmdastjóri JCA, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Eiríkur Steinn Búason verkefnastjóri hjá Verkís og Jóhannes Bjarnason formaður Hollvina SAk, en hann og Hildigunnur vottuðu undirskriftir samningsins.

Samningur um hönnun nýbygginga við Sjúkrahúsið á Akureyri undirritaður


 

„Þetta markar mikil tímamót í vegferð okkar að eflingu Sjúkrahússins á Akureyri með tilliti til bættrar aðstöðu sjúklinga og starfsumhverfi fyrir starfsfólk þess,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, SAk en skrifað hefur verið undir samning um hönnun nýrra legudeildarbygginga við SAk. Hönnunarvinna mun standa yfir næstu mánuði og er stefnt að því að taka fyrstu skóflustungu að nýbyggingum við sjúkrahúsið í ágúst á næsta ári og hefja jarðvegsvinnu í framhaldinu.

„Ég er hæst ánægð með þennan áfanga, þetta er gleðilegt fyrir okkur öll, starfsfólkið á sjúkrahúsinu og samfélagið allt. Við hlökkum mikið til áframhaldandi vinnu við hönnunina og bindum vonir við að hér verði komin nýbygging eins og áætlanir standa til eða í lok árs 2028,“ segir Hildigunnur.

Mikilvægt að búa vel að sjúkrahúsinu

Við athöfn sem fram fór á nýjum tengigangi milli bygginga á SAk fluttu þau Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH , Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Eiríkur Steinn Búason verkefnastjóri hjá Verkís ávörp áður en skrifað var undir hönnunarsamninginn. Heilbrigðisráðherra sagði fagnaðarefni að samningur um hönnun væri í höfn enda mikilvægt að vel væri búið að starfsemi sjúkrahússins. Starfsfólk þess hefði svo sannarlega sannað hvers það er megnugt þegar það tókst á við stórt og erfitt rútuslys á dögunum og þakkaði ráðherra vel unnið og faglegt verk.

Nýbyggingin verður sunnan við núverandi byggingar, þar sem nú er bílastæði og tengist eldri byggingum. Alls verður hún um 10 þúsund fermetrar að stærð. Í nýbyggingunni verður starfsemi skurðlækningadeildar, lyflækningadeildar og geðdeildar ásamt stoðrýmum fyrir dag- og göngudeild geðdeildar. Þegar deildir færast yfir í nýtt húsnæði þarf einnig að endurhanna um 1.300 fermetra húsnæði í eldri byggingum.

SAk nýbygging

Nýbyggingin verður sunnan við núverandi byggingar, þar sem nú er bílastæði og tengist eldri byggingum.

Sak meira nýbygg

Í nýbyggingunni verður starfsemi skurðlækningadeildar, lyflækningadeildar og geðdeildar ásamt stoðrýmum fyrir dag- og göngudeild geðdeildar.

 

 

 

 

Nýjast