„Það sem skiptir mestu máli er að vanda sig í því sem maður tekur sér fyrir hendur“
Jón Arnór Pétursson er aðeins 14 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur á hann nú þegar að baki glæstan feril sem leikari og skemmtikraftur.
Jón Arnór er þessa dagana að stíga sín fyrstu skref í útgáfu á eigin tónlist ásamt Baldri Birni Arnórssyni vini sínum. Þeir senda frá sér tónlist og koma fram undir listamannanafninu „Jón Arnór & Baldur“. Fyrsta lagið þeirra „Alla leið“ kom út 1. júní 2021. Strákarnir eru komnir í stúdíó með annað lagið sitt og von er á fleirum á næstu mánuðum.
Jón Arnór steig fyrst fram á sjónarsviðið í fyrstu þáttaröð af Ísland Got Talent. Óhætt er að segja að hann hafi fangað hug og hjörtu landsmanna með töfrabrögðum sínum og töfrandi sviðsframkomu. Hann fór alla leið í úrslit keppninnar og hafnaði í 2. Sæti. Í framhaldinu fylgdu töfrasýningar víðsvegar um land s.s. á bæjarhátíðum, árshátíðum og fjölskylduskemmtunum. Í júlí 2016 fór Jón Arnór til Þýskalands þar sem hann sýndi töfrabrögð í hæfileikaþættinum SuperKids sem sýndur var í Þýska ríkissjónvarpinu SAT1. „Segja má að Talent ævintýrið hafi rúllað af stað bolta sem hefur ekki stöðvast síðan og skapað ýmis tækifæri,“ segir Pétur Veigar Pétursson, faðir Jóns Arnórs í spjalli við Vikublaðið.
Jón Arnór hefur síðan lagt leiklistina fyrir sig. Hann fór með hlutverk Magga í fyrstu þáttarröð af Ófærð í framleiðslu Baltasars Kormáks. Hann hefur einnig leikið í kvikmyndum og þáttum s.s. Víti í Vestmannaeyjum og Loforði, ásamt því að hafa leikið í auglýsingum og unnið við talsetningar. Í vetur var Jón Arnór í tökum á söng- og dansleikjamyndinni Abbababb sem sýnd verður í kvikmyndahúsum næsta vetur.
Leikhúsið hefur einnig fengið að njóta hæfileika Jóns Arnórs en hann fór með hlutverk Níelsar í söngleiknum Matthildi sem sýndur var á stóra sviði Borgarleikhússins. Nú fer hann með hlutverk Tommí í uppfærslu Þjóðleikhússins á Kardemommubænum.
Þá hefur Jón Arnór verið í Söngskóla Maríu Bjarkar og í Sönglist í Borgarleikhúsinu ásamt því að hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum fyrir KrakkaRúv. Jón Arnór er Norðlendingur vikunnar.
Hvaðan ertu?
Hef alltaf búið í Reykjavík. Pabbi er frá Húsavík og þar búa Pétur afi og Solla amma. Mamma er úr Stykkishólmi.
Fjölskylduhagir?
Bý með pabba, mömmu og yngri bróður mínum, Patrik Nökkva í Grafarvoginum í Reykjavík. Aron eldri bróðir minn er fluttur að heiman.
Helstu áhugamál?
Leiklist, tónlist og íþróttir.
Helstu fyrirmyndir?
Allir þeir sem eru heiðarlegir og þora að láta drauma sína rætast.
Hvaða tónlistarmaður/hljómsveit er í mestu uppáhaldi hjá þér?
Queen, Jón Jónsson, Ed Sheeran, Alpatross
Hvernig er fullkomin helgi?
Að fá að stíga á svið, spila fótboltaleik og vera með fjölskyldu og vinum.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?
Mörg lög sem koma mér í gírinn. Dettur fyrst í hug Fireball. Sígilt stemningslag.
Uppáhaldssjónvarpsefni?
Friends og fótbolti
Stundarðu íþróttir?
Já, spila fótbolta með Fjölni
Uppáhaldsmatur?
Lambalæri með villisveppasósu
Hvar sérðu þig eftir 10 ár?
Búinn að klára nám, og enn að vinna í eigin tónlist
Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér?
Það eru fáir dagar eins. Föstu liðirnir eru skóli, fótboltaæfingar og gítarspil. Í vetur hafa svo bæst við leikæfingar/sýningar, kvikmyndatökur o.fl. Alltaf nóg að gera.
Hvaða áttu helst eftir ógert?
Þar sem nánast allt lífið er framundan á ég margt ógert. Það sem skiptir mestu máli er að vanda sig í því sem maður tekur sér fyrir hendur, hvað sem það verður.
Uppáhalds borg sem þú hefur heimsótt?
Manchester. Fórum á United leik í Meistaradeildinni og skoðunarferð um Old Trafford. Var líka gaman að fara með fjölskyldunni í leikhúsferð til London og fara á sýningu í Camebridge Theatre.
Hvað er helst á döfinni um helgina?
Útskriftarveisla hjá Aroni stóra bróður sem er að útskrifast úr Háskólanum í Reykjavík, halda áfram að vinna í næsta lagi, vera slakur og njóta lífsins.