Sundlaugin í Lundi opnar eftir allt saman
Sundlaugin í Lundi opnar í dag eftir mikið óvissuástand um hvort hún yfir höfuð yrði opin í sumar. Eins og sagt var frá í Vikudegi í apríl hafði Norðurþing um all nokkurt skeið auglýst eftir starfsfólki í sundlaugina en án árangurs. Það var því brugðið á það ráð að bjóða út reksturinn eins og gert hafði verið með góðum árangri með Sundlaugina í Heiðarbæ.
Á heimasíðu Norðurþings er sagt frá því að þau Neil og Cordelia muni standa vaktina í sumar. Þau eru með víðtæka reynslu og hafa meðal annars unnið við leiðsögn við köfun á Íslandi síðastliðin tvö ár.
„Það er mikið ánægjuefni að sundlaugin í Lundi sé opin og í ár og bjóðum við þau velkomin á staðinn,“ segir í tilkynningunni.
Undanfarna daga hefur verið unnið hörðum höndum að undirbúningi opnunar og eins og fyrr segir stendur til að opna í dag.