Sundlaugar á Akureyri Um 2% aukning í aðsókn fyrstu 8 mánuði ársins
„Veður hefur alltaf mikil áhrif á aðsókn hjá okkur,“ segir Elín H. Gísladóttir forstöðumaður Sundlauga Akureyrar. Lítilsháttar aukning er í sundlaugarnar þegar horft er yfir tímabilið frá janúar til loka ágúst. Á því tímabili voru gestir um 308 þúsund talsins og er það um 2% aukning frá sama tímabili árið 2022.
Ef litið er til sumarmánaðanna, júní, júlí og ágúst var aðsókn hins vegar tæplega 2% minni en fyrir sömu mánuði í fyrra.
„Helsta ástæðan fyrir því tel ég að megi rekja til veðurfarsins hér fyrir norðan í sumar sem leið. Það var ekki sérlega gott heilt yfir hjá okkur en var prýðilegt á sunnanverðu landinu. Það hvernig veður er fyrir sunnan hefur áhrif á aðsókn hjá okkur, það er alkunna að Íslendingar sækja ávallt þangað sem hlýtt er og sólin skín,“ segir Elín.