Stórutjarnaskóli hlaut umhverfisverðlaun Þingeyjarsveitar
Stórutjarnaskóli hlaut umhverfisverðlaun fyrir árið 2022 í Þingeyjarsveit, en ákveðið hefur verið að veita slíka viðurkenningu árlega fyrir eftirtektarvert framtak á sviði náttúruverndar, umhverfismála eða sjálfbærrar þróunar.Um er að ræða arfleið frá gamla Skútustaðahreppi segir á vefsíðu Þingeyjarsveitar en bent á að ýmis önnur sveitarfélög veiti slíkar viðurkenningar og þá með ýmsu sniði.
Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja íbúa til umhugsunar um gildi náttúru og umhverfis fyrir samfélag og atvinnulíf í Þingeyjarsveit og hvetja þá til að sýna því tilhlýðilega virðingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Viðurkenninguna er mögulegt að veita einstaklingi, félagasamstökum, stofnun eða fyrirtæki þ.m.t. lögbýlum til sveita, sem hefur með athöfnum sínum verið til fyrirmyndar og gert umgengni við náttúru og umhverfi að eðlilegum þætti í störfum sínum og rekstri eða hefur á annan hátt lagt mikið af mörkum til verndunar náttúru og umhverfis.
Af þeim tilnefningum sem bárust var ákveðið að Stórutjarnaskóli væri vel að viðurkenningunni kominn. Nærumhverfi skólans er vel við haldið og ásýnd staðarins til fyrirmyndar. Skipulag lóðarinnar ber þess merki að við hönnun hennar var lögð alúð rétt eins og við hönnun skólans. Saman skapar þetta fallega og snyrtilega heild sem umhverfisnefnd telur fulla ástæðu til að verðlauna.