30. október - 6. nóember - Tbl 44
Skógarböðin Um 180 þúsund gestir alls staðar að úr heiminum
„Við erum mjög þakklát fyrir þessa viðurkenningu, þetta er mikið hrós til allra þeirra sem koma að Skógarböðunum. Við erum einstaklega heppin með það starfsfólk sem vinnur hjá okkur en það hafa allir lagst á eitt við að gera upplifun viðskiptavina eins góða og hún getur verið.,“ segir Kjartan Sigurðsson framkvæmdastjóri Skógarbaðanna en fyrirtækið hlaut viðurkenninguna Sproti ársins á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi.
Kjartan segir að frá því Skógarböðin voru opnuð í maí árið 2022 hafi verið tekið á móti um 180 þúsund gestum og koma þeir alls staðar að úr heiminum. „Fyrsta árið var meirihluti okkar gesta Íslendingar, en nú á þessu ári hefur það breyst og í þá átt að meirihluti gestanna eru erlendir. Hlutföllin eru á bilinu 70% útlendingar og 30% Íslendingar,“ segir hann. „Við erum mjög ánægð með hversu fjölbreyttur viðskiptavinahópur Skógarbaðanna er, þetta er langt í frá ákveðinn hópur sem nýtir sér böðin okkar, heldur er á ferðinni alls konar fólk.“
Aukning í sölu vetrarkorta
Skógarböðin eru að sögn Kjartans virkilega heppin með þá fastakúnna sem sækja böðin reglulega, en mikil aukning hefur verið í sölu vetrarkorta á milli ára. Breyting var gerð á sölu vetrarkorta í þá átt að nú eru í boði þrenns konar kort og gilda yfir mislangan tíma, 3ja mánaða kort, 6 mánaða og upp í 9 mánaða kort. „Það er skemmtilegt að segja frá því að þeir sem voru með vetrarkort hjá okkur í fyrra hafa nánast allir endurnýjað þau auk þess sem nýir viðskiptavinir hafa bæst í hópinn.“
Kjartan segir að bjart virðist fram undan og hjá Skógarböðunum horfi menn til spennandi framtíðar. Hann nefnir að Markaðsstofa Norðurlands hafi unnið frábært starf til að gera svæðið að áhugaverðum stað fyrir heilsárs ferðaþjónustu „og sjáum við það best í því að nú hefur EasyJet gert Akureyri að nýjasta áfangastað sínum, Það eru mikil tækifæri í greininni hjá okkur og það verður gaman að sjá vöxt hennar á næstu árum,“ segir hann.
Tekist að skapa vöru sem er eftirtektarverð og eftirsótt
Fram kemur í umsögn frá Markaðsstofu Norðurlands með viðurkenningunni Sproti ársins að á Norðurlandi séu gott úrval baðstaða. Skógarböðin – Forest Lagoon hafi komið eins og stormsveipur inn á þann markað með upplifun sem vakið hafi mikla athygli, bæði innanlands og erlendis.
„Það er ekki síst vegna fagmennsku í þjónustu við gesti, sem upplifa það frá fyrstu sekúndu að hugað sé að öllum smáatriðum. Umhverfi baðanna er enda einstakt og gjörólíkt því sem boðið er upp á annarsstaðar. Þannig hefur tekist að skapa vöru sem er bæði eftirtektarverð og eftirsótt og það hefur sýnt sig að eigendur fyrirtækisins náðu að nýta tækifærið sem gafst til að bjóða upp á nýja afþreyingu í svo mikilli nálægð við Akureyri. Áform eru um frekari uppbyggingu á svæðinu og ef jafn vel tekst til og með böðin má fólk í ferðaþjónustu og gestir eiga von á góðu.“
Kjartan Sigurðsson framkv.stj Skógarbaðanna