Skjálfandi - listahátíð haldin í 6. sinn
Skjálfandi - listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudagskvöldið 9. júní n.k. Þetta er í 6. sinn sem hátíðin verður haldin í Norðurþingi en hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 og um 50 listamenn hafa tekið þátt í gegnum tíðina.
Það er Harpa Sigurjónsdóttir sem sem skipuleggur hátíðina eins og hún hefur gert frá upphafi. Hún segist oft hafa velt því fyrir sér afhverju hún sé að standa í þessu enda sé gríðarlega mikil vinna sem liggur á bak við skipulagningu slíkrar hátíðar.
„Ég geri þetta af því að þegar ég var yngri að alast upp á Húsavík, þá var svo mikil pönkmenning hérna. Það var ótrúlega þakklátt að hafa alla vega þá menningu en það var kannski ekki mikið meira en það. Maður fann svo rosalega mikin mun þegar maður kom til Reykjavíkur á fjölbreytninni og þeim tækifærum sem í boði eru. Mér finnst svo mikilvægt að fólk kynnist öllum möguleikum, að fólk sjái hvað er mikið þarna úti af allskonar listum og fjölbreyttum tónlistastefnum. Þetta finnst mér svo mikilvægt, ég sá aldrei þessa fjölbreytni þegar ég var barn og unglingur,- það er aðallega þess vegna sem ég er að standa í þessu,“ sagði Harpa í samtali við Vikudag.
Um að gera að "droppa" við
Ókeypis er inn á hátíðina eins og undanfarin ár og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin stendur frá klukkan 20:00 til miðnættis og segir Harpa að það sé um að gera að „droppa“ við og kíkja á þá viðburði sem hver og einn hefur áhuga á. Það sé alveg sjálfsagt að koma og fara á meðan hátíðin stendur yfir.
Þeir sem koma fram eru:
- Karlakórinn Hreimur - tónlist
- Hóffý Ben - tónlist
- Lára Sóley Jóhannsdóttir - tónlist
- Rafnar - tónlist
- Best King Kong - tónlist
- Andrea Pétursdóttir - tónlist
- Harpa Ólafsdóttir - tónlist
- Björk - myndlist
- Halldóra Kristín Bjarnadóttir - ljósmyndun
- Vinnslan - tónlist og leiklist (Harpa Fönn, Biggi Hilmars, Guðmundur Ingi Þorvaldsson, María Kjartansdóttir og Vala Ómars
Harpa bendir á að allir listamenn sem koma fram á hátíðinni fái greitt fyrir þátttöku sína, 10 þúsund krónur. „Það er ekki mikið en það er samt eitthvað. Mér finnst svo mikilvægt að innprenta það í kúltúrinn að það sé borgað fyrir svona framlag. Að það sé ekki alltaf hugsunarhátturinn að listamenn komi fram án þess að fá greitt af því að þeir eiga bara að vera fegnir að fá yfir höfuð að koma fram,“ segir Harpa.
Námskeið í hljóðupptöku
Í tengslum við hátíðina er nú í fyrsta sinn boðið upp á byrjendanámskeið í hljóð og tónlistarupptökum. Leiðbeinendur eru Harpa Sigurjónsdóttir og Rafnar Orri Gunnarsson. Námskeiðið verður kennt í Tónlistarskólanum á Húsavík miðvikudaginn 7. júní n.k. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu en það var auglýst fyrir nokkru síðan og komust færri að en vildu. „Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með þetta námskeið í tengslum við hátíðina. Það var svo mikil aðsókn, að við bættum við tveimur plássum en það komust samt færri að en vildu. Við stefnum því að því að vera með samskonar námskeið aftur að ári,“ segir Harpa en þrjár stelpur og fimm strákar á aldrinum 12-17 ára taka þátt í námskeiðinu. “Þau hafa öll verið að syngja eða spila á hljóðfæri og eru með geðveikan áhuga á tónlist. Við ætlum að vera upp í tónlistarskóla og kenna þeim að taka upp grunn að lagi. Það er svo mikilvægt fyrir unglinga í dagað læra að vera sjálfbær, að geta gert þetta bara heima hjá sér,“ segir Harpa.
Vikudagur hvetur fólk til að taka kvöldið frá og veita þessu framtaki verðskuldaða athygli, mæta í Samkomuhúsið og hafa gaman af.
Nánari upplýsingar má nálgast á Facebooksíðu hátíðarinnar.