Skapar skemmtilega Eurovision-stemmningu
Heiðrún Jóhannsdóttir leikskólakennari á Akureyri er mikill Eurovision aðdáandi og er farin að bíða spennt eftir aðalkeppninni sem fram fer í Kænugarði í Úkraínu í kvöld. Heiðrún er meðlimur í FÁSES, sem er íslenskur aðdáendaklúbbur Eurovision. Þó nokkrir meðlimir klúbbsins eru hér á Akureyri og eru duglegir að hittast fyrir keppnina og spá í spilin.
Vikudagur sló á þráðinn til Heiðrúnar og spurði hana út í keppnina.
„Þetta er alltaf skemmtilegur og spennandi tími,“ segir Heiðrún. Hún segir mikla stemmningu skapast á sínu heimili í Eurovision-vikunni og reynir hún að smita áhugann á aðra fjölskyldumeðlimi. „Við horfum á báðar undankeppninnar og spáum í spilin. Tengdafjölskyldan hefur stundum komið saman á aðalkvöldinu, borðar góðan mat og svo er stigakeppni.
Þegar undankeppnirnar eru þá giskum við á hvaða tíu lönd komast áfram og á úrslitakvöldinum er ágiskun um topp fimm. Þannig að við búum til skemmtilegt kvöld í kringum þetta. Þá dreifi ég einnig Eurovisiongleðinni á vinnustaðinn en þar var ágiskun um topp 10 í hvorum riðli fyrir sig í gangi í vikunni," segir Heiðrún er lengra viðtal við hana má nálgast í nýjasta tölublaði Vikudags.