Samstarf iðnfélaga í komandi kjarasamningum algert lykilatriði fyrir félagsmenn
Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, FMA, segir að samstarf iðnfélaganna í landinu í komandi kjarasamningum sé algert lykilatriði fyrir félagsmenn. Þetta kom fram í ræðu hans á aðalfundi félagsins en fundurinn var jafnframt afmælis- og hátíðarfundur í tilefni af 80 ára afmæli FMA. Engir félagsfundir voru á starfsárinu vegna kórónuveirufaraldursins en alls voru haldnir tíu stjórnarfundir. Félagsmönnum fjölgaði um 10 á starfsárinu og eru nú 453, þar af 8 konur.
Samband iðnfélaga í burðarliðnum?
Jóhann Rúnar kom víða við í ræðu sinni. Hann gagnrýndi forseta ASÍ og framkvæmdastjóra sambandsins fyrir stefnu þeirra í jafnréttismálum. „Nú á dögum snúast málin fyrst og fremst um kyn meira en félagsmenn eða almennt jafnrétti. Forseti virðist heldur ekki hafa skilning á að meta menntun eða reynslu til launa, sem er að mínu mati verulegt áhyggjuefni,“ sagði hann.
„Eiga iðnfélögin heima innan ASÍ – hvaða leið er okkur farsælust? Reyndar er það svo að formaður veltir því fyrir sér hvaða stefnu iðnaðarsamfélagið eigi að taka. Á að stofna formlega Samband iðnfélaga í því samstarfi sem iðnfélögin hafa verið í, svipað því sem Samiðn stendur fyrir nú og getur leyst þá hluti? Hin leiðin er einfaldlega að sameinast um framboð iðnfélaganna til embættis forseta ASÍ.“
Jóhann telur að samstarf iðnfélaganna á landsvísu sé eitt af því mikilvægasta fyrir félagsmenn FMA gagnvart réttindum og launasamningum inn í framtíðina