Samkaup minnkar matarsóun með Lautinni

Frá undirritun samningsins frá vinstri Aníta EinarsdótturLautinni, Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefna…
Frá undirritun samningsins frá vinstri Aníta EinarsdótturLautinni, Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóra umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum og Ólaf Torfason, fulltrúar Lautarinnar. Mynd aðsend

Samkaup undirrituðu nýlega samning við Lautina, athvarf rekið af Akureyrarbæ fyrir fólk með geðsjúkdóma á Akureyri, með það að markmiði að minnka matarsóun í verslunum sínum og styðja gesti Lautarinnar með matargjöfum. Verkefnið er hluti af markvissu átaki Samkaupa um allt land um mataraðstoð gegn matarsóun.  

Markmið samkomulagsins er að vinna í sameiningu að því að minnka matarsóun og förgun matvæla og stuðla að samfélagslegri ábyrgð í nærsamfélagi verslana. Verkefnið snýr að því að Samkaup mun gefa Lautinni matvæli sem annars yrði fargað en er þó enn hægt að nýta í matseld. Lautin mun annað hvort gefa skjólstæðingum sínum þennan mat eða nýta á annan hátt innan starfsemi sinnar. 

„Við erum afar ánægð með árangurinn í átakinu gegn matarsóun og hversu vel hefur gengið að bjóða fleirum með í vegferðina. Við höfum átt í samtali við Ólaf og Anítu hjá Lautinni síðustu mánuði og það gleður okkur hversu vel okkur var tekið og að hafa nú fengið þau með okkur í að sporna gegn matarsóun í verslunum okkar á Akureyri. Það er hagur okkar allra sem samfélags að draga sem mest úr matarsóun, en þá er einnig mikilvægt fyrir okkur hjá Samkaupum að að láta gott af okkur leiða í nærsamfélaginu og styrkja þau sem eru að vinna að bættri velferð fólks. Það er ánægjulegt að geta gert hvort tveggja í einu,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum.

Lautin er athvarf fyrir fólk með geðrænar áskoranir, staðsett í Brekkugötu 34 á Akureyri. Markmið Lautarinnar er að draga úr félagslegri einangrun í samfélaginu og skapa umhverfi þar sem gagnkvæm virðing og traust ríkir á milli gesta og starfsmanna. Alla virka daga er boðið upp á heitan mat í hádeginu og kaffi allan daginn. Lautin er opin virka daga kl. 9 til 15 og eru allir velkomnir.

„Við leggjum mikla áherslu á að það sé notalegt andrúmsloft í Lautinni, við spilum mikið, prjónum, heklum, förum í göngutúra og spjöllum saman. Það er okkar von að með þessu flotta samstarfi við Samkaup getum við lagt enn meira til samfélagsins og komið til móts við þá sem þurfa á því að halda, ekki bara með opnum örmum og góðum félagsskap, heldur einnig með matargjöfum,“ segja fulltrúar Lautarinnar, Ólafur Torfason og Aníta Einarsdóttir.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Samkaupum

Nýjast